147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:46]
Horfa

Eva Pandora Baldursdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka flutningsmanni framsöguna og þakka formönnum næstum allra flokka á Alþingi fyrir að hafa staðið að þessu frumvarpi. Ég styð þetta mál svo sannarlega, en á sama tíma harma ég að ekki var hægt að ganga lengra til að vernda fjölskyldur og börn sem sækjast eftir hæli hér á landi. Ég harma að ekki hafi verið tekið inn í þetta frumvarp ákvæði um að áður en ákvörðun er tekin og um börn er að ræða skuli Útlendingastofnun eiga samráð við barnaverndaryfirvöld.

Ég harma einnig að ekki var hægt að taka á dagskrá frumvarp hv. þm. Loga Einarssonar um að veita tveimur stúlkum og fjölskyldum þeirra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu ríkisborgararétt.

Ég hef nefnilega áhyggjur af því að þó svo að þetta góða frumvarp verði að lögum tryggi það ekki sanngjarna meðferð á málum þeirra og annarra barna í sömu stöðu þó svo að þau geti óskað eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar útlendingamála. Þó svo að mál þeirra verði tekin upp aftur hafa þau enga tryggingu fyrir því að í þetta skipti munu stjórnvöld virða t.d. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það virðist vera svo að Útlendingastofnun vinni á órannsakanlega vegu. Ég er hrædd um að þetta frumvarp dugi ekki til þess að bæta úr því. Þess vegna hefði verið gott að geta veitt þessum fjölskyldum ríkisborgararétt til þess að þær væru öruggar á meðan stjórnsýslan reynir að laga lagalegan vanda.

Þó svo að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið lögfestur árið 2013, fyrir fimm árum, brjóta stjórnvöld enn á honum blákalt. Í 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir, með leyfi forseta:

„Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

Ísland er aðildarríki að þessum sáttmála og ber skýra ábyrgð samkvæmt honum. Aðildarríki eiga að tryggja börnum þau réttindi sem barnasáttmálinn kveður á um.

Það sem þarf að gera, og ég legg til að það verði gert strax á nýju kjörtímabili, er að setja upp áætlun sem felur í sér að hætta að misnota Dyflinnarreglugerðina til að senda hælisleitendur og börn úr landi.