147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[18:05]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegur forseti. Ég skrifaði ræðu og ætla að standa hér og tala af jákvæðni. Þótt ég hafi kyngt mjög miklu af stolti þá hlustaði ég á dómsmálaráðherra og nú mun ég tala eftir eigin geðþótta. Ég var höfð að fífli. Þetta mál hefði líka getað sprengt þessa ríkisstjórn, segi ég hér og nú. Mér þykir það mjög leitt. Ég treysti því að vinnunni sem ég lagði fram yrði mætt af virðingu. Það að mæta virðingu frá öðrum þingmönnum í þessum sal, vinum mínum í Viðreisn, en hæstv. dómsmálaráðherra sýndi mér hér að mér var ekki mætt af virðingu. Og sú vinna sem ég lagði fram til að ná málamiðlun vegna frumvarps sem lagt var fram vegna ríkisborgararéttar sem ekki hefði verið besta fordæmið í þessum málum, var ekki virt. Vinna mín var ekki virt.

Nú skal ég fara í ræðuna sem ég skrifaði.

Ég vil þakka þeim þingmönnum sem töluðu á undan mér. Þeir skýrðu margt varðandi þá stöðu sem við erum komin í. Hv. þm. Pawel Bartoszek skýrði stöðuna mjög vel. Hér er um að ræða ákvæði til bráðabirgða um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, málsmeðferðartími. Með því að samþykkja þessa breytingu til bráðabirgða munum við draga úr þeirri óvissu sem ríkir um börn sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hérlendis fyrir gildistöku laganna og hafa ekki þegar yfirgefið landið. Málið sem við munum greiða atkvæði um er niðurstaða mikilvægrar málamiðlunar eða samningaviðræðna sem staðið hafa yfir í nokkurn tíma í kjölfar frumvarps til ríkisborgararéttar. Það er hlutverk okkar á Alþingi, eða réttara sagt skylda okkar sem kjörinna fulltrúa, að leiða slík mál til lykta. Það held ég að við höfum gert.

Drög sem lögð voru fram til málamiðlunar báru annað heiti: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, hagsmunir barna. Því að það er mál málanna, hagsmunir barnanna. Það frumvarp hefði náð til breiðari hóps og hefði tilgreint sérstaklega viðkvæma stöðu sem sérstakar aðstæður fyrir því að taka skyldi Dyflinnarmál til efnislegrar meðferðar. Það hefði tryggt að það sem væri barni fyrir bestu skyldi hafa að leiðarljósi í Dyflinnarreglugerðinni, þ.e. mál barna, líka fjölskyldna, ásamt því að skilgreina betur samráð við barnayfirvöld, efnismeðferð mála, tíma og eðli.

En því miður er það er verkefni sem bíður okkar á næsta þingi að ná þeim breytingum þrátt fyrir vilja minn til að leysa það nú. Það hef ég sagt, og brosað til félaga minna í Sjálfstæðisflokknum. Því miður. En það er ekki frumvarp sem liggur fyrir okkur nú.

Í dag ætla ég að fagna því að með samþykkt þeirra breytinga sem hér er um að ræða munum við ná til nokkurra fleiri barna og fjölskyldna sem bíða í óvissu. Við munum ná að gæta jafnræðis, þótt það sé takmarkað á þessum tíma. Ég vil undirstrika hversu mikilvægt það er að við höldum áfram að vinna að því að draga úr óvissu. Ég hef sagt með mikilli vissu að við værum að stefna þangað og halda áfram með þetta mál og finna betri leið til að við getum verið stolt af okkur, Íslendingar, og því jákvæða fordæmi sem við munum sýna í þessum málaflokki.

Fyrirgefið. Ég er svolítið tilfinningasöm. Þetta er mikið tilfinningamál fyrir okkur öll.

Ætlunin með gerð löggjafar um útlendinga var að uppfylla skyldu okkar til að tryggja enn frekara samræmi í íslenskum lögum við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er ákvæði í lögunum um tengsl og samræmingu við barnasáttmálann. En eitthvað klikkaði í framkvæmdinni sem sagði okkur þegar við mættum á fund í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að túlkun þessara laga og framkvæmd þeirra næði ekki markmiðinu.

Ný lög um útlendinga, nr. 80/2016, tóku gildi 1. janúar 2017. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 80/2016 kemur fram að í því hafi sérstök áhersla verið lögð á réttindi barna og umbætur. Þær varða m.a. sérstök ákvæði um réttindi barna í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og skilgreiningar á því hvað sé barni fyrir bestu. Komið hefur í ljós við beitingu laganna að það er ákveðin óvissa um túlkun á ákvæðum þeirra er varðar mat á því hvað barni sé fyrir bestu, m.a. hvað varðar endursendingu umsækjanda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðar nr. 604/2013 og við mat á því hvort veita skuli barni alþjóðlega vernd hér á landi.

Ég vona svo sannarlega að menn átti sig á því að málefni tengd umsækjendum um alþjóðlega vernd eru málefni sem við munum vinna lengi að. Því er ekki lokið með afgreiðslu þessa frumvarps. Samkvæmt tölfræði frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru í heiminum öllum yfir 62 milljónir fólks á flótta. Af þeim eru 12,7 milljónir skilgreindar sem börn eða einstaklingar undir 18 ára.

Ég tel þörf á að við mótum stefnu til framtíðar í þessum málaflokki og að lög okkar séu skýr svo framkvæmd þeirra tryggi bæði mannúð, jafnræði og endurspegli ekki síst ábyrgð okkar sem hluta af alþjóðasamfélaginu og ekki síður siðferðislega skyldu okkar til að taka þátt í að vernda þá sem á þurfa því að halda, svo ég noti orð hæstv. dómsmálaráðherra; fólk í alvöruneyð.

Útbýtt var á þingfundi í dag beiðni um skýrslu frá ríkisendurskoðanda um stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi Útlendingastofnunar. Ég er einn þeirra þingmanna sem telja slíkrar skýrslu þörf. Hún mun styðja við stefnugerð. Hér spurði hæstv. dómsmálaráðherra hvort við teldum að eitthvað væri í framkvæmdinni sem ekki væri rétt. Það kemur í ljós við gerð þessarar skýrslu. Ég tel einnig að það sé afar mikilvægt að þegar Alþingi tekur til starfa sé sett saman þverpólitísk nefnd, sem var alltaf vilji löggjafans. Það kemur fram í greinargerð þegar lögin voru samþykkt. Hefði þessi nefnd verið starfandi værum við kannski ekki hér að ræða um þessa einstaklinga. Kannski hefðu hlutirnir farið betur. Kannski hefði aukist traust á milli flokka sem voru í ríkisstjórn á þessum tíma.

Ég skráði mikið niður undir ræðum annarra þingmanna. En það var eitt sem ég vildi snerta aðeins á þar sem ég hef sterkar tilfinningar gagnvart því. Það varðar nokkuð sem er þyngra en tárum taki. Það var mín upplifun. Ég hugsaði þegar ég horfði í augun í börnum, fylgdarlausum börnum á heimili á Grikklandi, börnum í flóttamannabúðum sem bjuggu við alvöruneyð, að þegar ég kæmi heim til landsins og faðmaði mín eigin börn, sem voru örugg, að ég myndi leggja mig alla fram til að við stæðum betur að þessari löggjöf og að við Íslendingar, íslensk þjóð, bærum höfuðið hátt og stolt yfir þeirri málsmeðferð sem við veitum fólki sem sækir um alþjóðlega vernd. En í dag mun ég fagna því að við höfum náð málamiðlun um þessar tvær fjölskyldur og nokkrar fleiri og svörum ákalli samfélagsins um þau mál sem verið hafa til umræðu.

En ég hef enn þær væntingar að fordæmi þessarar ákvörðunar hafi það gildi að menn líti á málefni flóttafólks út frá mannúð og jafnræði.