147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[18:30]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Starfandi forsætisráðherra víkur að samstöðu um þessi mál og að við skulum ekki víkja frá samstöðu um þessi mál. Hann bendir réttilega á að þetta sé mikið tilfinningamál sem beri að sýna ýtrustu varúð.

Mig langar að byrja á að spyrja hæstv. forsætisráðherra um hvað hann eigi við með samstöðu. Á hann við með samstöðu, eins og hann vísaði í á fundi hjá Samtökum eldri Sjálfstæðismanna, með leyfi forseta, að Íslendingar þurfi að beita ströngum reglum til þess að tryggja að „við fáum ekki yfir okkur milljón flóttamenn“, og jafnvel taka upp kerfi þar sem fólki sé ekki hleypt inn í landið án vegabréfsáritunar? Er ráðherra að tala um samstöðu gagnvart því? Finnst honum vera samstaða fyrir því? Snýr samstaðan að passa upp á tilfinningar sínar ekki líka að því að fara varlega með orð sín gagnvart fólki sem kemur hingað og sest hér að? Var ekki óvarlegt af forsætisráðherra að tala um að lögreglan fari aldrei óvopnuð í Víðines? Var það ekki óvarlega talað, og spilað inn á tilfinningar hjá fólki í þessum málaflokki? Var það ekki svo? Er samstaða um slíkan málflutning á þessu þingi?

Í lokin: Er samstaða á þessu þingi um að forsætisráðherra þjóðarinnar tali um að það hafi verið slæm ráðstöfun að veita Íslendingum, sem sannarlega fengu íslenskan ríkisborgararétt, þann ríkisborgararétt? Var forsætisráðherra ekki að tala til Íslendinga þar? Hvar er forsætisráðherra að passa upp á tilfinningar sínar í því máli? Hvernig er hann ekki að spila með tilfinningar fólks þar? Hvar er samstaðan í því?