147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[18:39]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra bauð upp á almenna umræðu um þennan málaflokk. Ég er að hugsa um að þiggja það boð hans. Ég ætlaði nefnilega líka að spyrja út í fundinn sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir spurði út í og hæstv. forsætisráðherra kom sér undan að svara þrátt fyrir að hann færi vel rúmlega yfir þann ræðutíma sem honum var markaður.

Mig langar að endurtaka spurningu hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur: Finnst hæstv. forsætisráðherra það í lagi að tala um að lögreglan fari ekki í Víðines óvopnuð, ef sú er ekki reyndin? Finnst hæstv. forsætisráðherra að hann geti talað svona í hans stöðu?

Mig langar líka að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í ummæli sem höfð eru eftir honum í frétt Morgunblaðsins af umræddum fundi Samtaka eldri Sjálfstæðismanna þar sem spurt er út í kostnaðinn við hælisleitendur. Þar er haft eftir forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Mér finnst erfitt að horfa á eftir þessum miklu fjármunum sem fara í þetta mál.“

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í þetta þar sem hann talaði um það áðan að honum þætti býsna dapurlegt að hafa horft upp á ástandið, hvernig það hefði verið og það væri nauðsynlegt að hraða málsmeðferð. Hvernig fer það saman að finnast það erfitt að horfa á eftir þessum miklu fjármunum sem fara í málið og vilja um leið hraða málsmeðferð?

Ég bið hæstv. forsætisráðherra lengstra orða að svara nú einfaldlega spurningunni en setja ekki á langar ræður um hvað ég ætti að vera að leggja fram eða einhverjar ímyndaðar deilur um eitthvað sem er ekki verið að spyrja út í hér. Ég er einfaldlega að spyrja út í orð hæstv. forsætisráðherra sem hann lét falla á umræddum fundi. Hann hlýtur að vera maður til að standa undir þeim orðum og svara fyrir þau.