147. löggjafarþing — 7. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[23:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og vænta má kem ég ekki hér upp til þess að mótmæla hv. framsögumanni, Nichole Leigh Mosty, þar sem ég skrifa undir álitið með henni ásamt öðrum þingmönnum, fyrir utan þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp í stutta ræðu frekar en andsvar, nota þetta fundarform, er til þess að ítreka afstöðu mína. Ástæðan fyrir því að ég er sammála þessu frumvarpi og sammála þessu nefndaráliti snýr að mikilvægi þess að alltaf sé verið að meta og huga að hagsmunum barna þegar kemur að afgreiðslu þessara mála. Það getur verið, og vonandi er það þannig í langflestum tilvikum, að það séu hagsmunir barnsins að vera á Íslandi, en það geta líka komið upp tilvik þar sem svo er ekki. Það er þá mikilvægt að gætt sé að því.

Ég tel mikilvægt, í ljósi þess að þetta er síðasti dagur þessa mjög svo stutta þings og við óvanalegar aðstæður, að við skoðum jafnframt og íhugum þær ábendingar sem fram koma frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem byggjast m.a. á ábendingum og áhyggjum sem komu fram á fundinum frá gestum, ekki hvað síst lögreglunni.

Ég vil jafnframt taka undir það sem hv. þingmaður sagði um mikilvægi þess að samstarfið á milli Útlendingastofnunar og Barnaverndarstofu verði betra, verði skilvirkara og nær því sem Alþingi sá fyrir sér þegar ný útlendingalög voru samþykkt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)