147. löggjafarþing — 7. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[23:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Nichole Leigh Mosty) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir afstöðu hennar og koma aftur að því af hverju við erum komin á þennan stað og af hverju ég hélt tilfinningaþrungna ræðu fyrr í dag. Við höfum ekki staðið okkur nægilega vel hvað varðar málefni barna, en vilji löggjafans er að við stöndum betur að þeim málum. Ný lög um útlendinga, nr. 80/2016, tóku gildi 1. janúar 2017. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum, kemur fram að lögð hafi verið sérstök áhersla á réttindi barna og umbætur er þau varðar. Mikilvægt er að lögin geri það í framkvæmd sem ætlast er til. Við stöndum hér núna og ræðum tvö einstök mál þar sem þjóðin segir að við höfum brotið á börnum. Það er mikilvægt að við leiðréttum það. Ein leið er að styrkja samvinnu á milli þeirrar stofnunar sem er sérfræðingur í málefnum barna og þeirra sem taka afstöðu til þeirra barna sem við ræðum hér, barna sem leita eftir alþjóðlegri vernd.