147. löggjafarþing — 7. fundur,  27. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[00:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir svarið svo langt sem það náði. Ég skil ekki alveg hvernig hv. þingmaður ætlar nokkurn tímann að koma í veg fyrir að flökkusögur fari af stað ef það þarf að gera einhverjar breytingar til batnaðar í þessum málum. Ég verð að játa það að mér finnst þetta ótrúlega sérstök setning í virðulegu plaggi eins og nefndarálit alþingisnefndar er. Að setja fram hugmynd um að einhverjar flökkusögur fari mögulega af stað sem erfitt sé að sporna við, þetta er allt í einhverjum svona heita potts-stíl, verð ég að leyfa mér að segja. Mér finnst það ekki sæma virðulegu Alþingi að vera með svona setningar í nefndaráliti.

Hins vegar segir í nefndarálitinu að fram kom að fyrirséð væri að sú breyting sem lögð er til leiði til talsverðrar fjölgunar umsókna um alþjóðlega vernd. Er hv. þingmaður tilbúinn að fullyrða það svo enginn efi leiki á að þetta sé satt, (Forseti hringir.) að það verði talsverð fjölgun umsókna verði þetta frumvarp að lögum?