147. löggjafarþing — 7. fundur,  27. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[00:04]
Horfa

Eva Pandora Baldursdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni framsöguna. Hv. þingmaður sagði að mikilvægt væri að sátt myndi ríkja um störf þeirra stofnana sem fara með útlendingamál. Ég vil spyrja hv. þingmann hversu mikil sátt hún telji að sé um starfsemi þessara stofnana í dag og hvort þetta frumvarp bæti það ekki mögulega. Einnig segir hv. þingmaður að trúverðugleiki þeirra stofnana fáist ekki með því að Alþingi taki fram fyrir hendurnar á stjórnsýslunni í einstökum málum. Ég vil ítreka það að hér er Alþingi ekki að gera breytingar út af einstökum málum heldur vegna síendurtekinna brota stofnana, ekki einungis á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna heldur á siðferðisvitund almennings. Ég vil endilega heyra álit hv. þingmanns á því.

Einnig segir, með leyfi forseta:

„Slík endurskoðun getur ekki farið fram með tilliti til einstaka ákvarðana heldur að vel ígrunduðu máli með víðtæku samráði sérfræðinga …“

Ég spyr: Nú hafa sérfræðingar lagt mat á þetta mál og lagt hefur verið mat á að ítrekað er verið að brjóta á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég vil endilega fá að heyra álit hv. þingmanns á þessum málum.