147. löggjafarþing — 7. fundur,  27. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[00:27]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Frú forseti. Ég hlustaði hér af athygli á ræðu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur sem flutti nefndarálit minni hlutans. Ég ætla ekki að saka hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur um að vilja börnum illt. Ég þekki hana að góðu einu. En að sama skapi vil ég ekki að endurtekin sé sú mantra æ ofan í æ að þeir sem standa að þessari tillögu hafi einfaldlega hlaupið til og mixað eitthvað afturvirkt frumvarp sem tekur einungis til þessara örfáu fjölskyldna. Það var ekki upprunalega uppleggið. Við, m.a. þingmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, lögðum fram frumvarp sem tók á þessum málum heildstætt. Við lögðum fram frumvarp sem tók á málum sem snerta barnavernd, sem stytti ýmsa fresti, sem tiltók sérstaklega stöðu fólks í viðkvæmri stöðu. Þetta frumvarp var sent út. Það var beðið um meðflutningsmenn. Það var sent á alla þingmenn. Það gátu allir farið á það frumvarp. Það má öllum vera ljóst að það var vilji alla vega hluta þeirra sem standa að þessari tillögu að taka á málinu heildstætt.

Það komu fleiri þannig frumvörp fram. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom með frumvarp sem tók á hluta af þessum málum þannig að viljinn til að taka á málum heildstætt er svo sannarlega til staðar. Það er bara hluti af niðurstöðu þeirrar vinnu sem fer síðan fram að menn skera niður.

Það er erfitt að hlusta á að upprunalega uppleggið hafi alltaf verið það að taka aðeins til þessara tilteknu mála því það var alls ekki tilfellið. Auðvitað getum við síðan tekið þá afstöðu, fólk getur komið og sagt að það hafi enginn verið tími til þess að vinna málið heildstætt. Gott og vel. Það má kannski fallast á að það sé erfitt að vinna svona heildstæðar breytingar á útlendingalögum á svona stuttum tíma. En það er allt önnur ásökun að segja að menn hafi upprunalega lagt fram áætlun þar sem þeir vildu einungis taka á málum þessara tilteknu fjölskyldna. Það var alls ekki tilfellið. Vilji margra þeirra sem standa að þessu var einmitt að breyta hlutum heildrænt. Ég læt ekki endurtaka það æ ofan í æ að það hafi verið eitthvað annað.

Síðan er athyglisvert að hlusta dálítið á þá gagnrýni sem fram kemur á málflutning þeirra sem vilja að öðruvísi sé staðið að þessum málum. Ef það er gert eins og í þessu frumvarpi og tekið einungis á málum örfárra fjölskyldna þá er maður sakaður um að grípa í raun fram fyrir hendur á stjórnsýslunni. Ef það er gert með heildrænum hætti þá er það allt of dýrt. Annaðhvort eða. Annaðhvort viljum við hafa þetta allt of dýrt eða við viljum hafa þetta ódýrt og taka á mjög afmörkuðu málasviði. Ég sé alveg rökin á bak við hvort tveggja. En ég sé ekki að það sé heiðarlegt að setja fram gagnrýni á hvort tveggja í einu. Maður verður að ákveða sig eða segja bara: Við erum ánægð með fyrirkomulagið eins og er. Það getur líka vel verið að það sé tilfellið.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Mig langaði bara að koma þessu að. En ég vona að þrátt fyrir að við höfum ekki náð að gera þessa litlu og vissulega tímabundnu breytingu til bráðabirgða í sameiningu þá verði engu að síður mögulegt að halda áfram að vinna að breytingum á útlendingalögum í sátt eins og var réttilega gert á síðasta kjörtímabili.