147. löggjafarþing — 8. fundur,  27. sept. 2017.

þingfrestun.

[00:50]
Horfa

Forseti (Unnur Brá Konráðsdóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Nú er þessu stutta þingi lokið. Mál hafa sannarlega þróast með öðrum hætti en við áttum von á við upphaf þessa þings fyrir 15 dögum. Þetta verður í sögubókunum meðal stystu löggjafarþinga, þó ekki það stysta.

Ég hef í sumar og það sem af er þessu þingi átt gott samstarf við formenn þingflokka, forsætisnefnd og ríkisstjórn og fyrir það vil ég þakka. Þingmönnum öllum og starfsfólki þakka ég sömuleiðis fyrir gott samstarf.

Fyrir liggur að fjórir þingmenn hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér í komandi alþingiskosningum. Allt eru þetta konur. Það er mjög umhugsunarvert. Reynslan sýnir að konur sitja almennt skemur á Alþingi en karlar. Eygló Harðardóttir, fyrrverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, lætur nú af þingmennsku eftir tæp níu ár og þar af nærri fjögurra ára setu á ráðherrabekk. Birgitta Jónsdóttir sem gegnt hefur trúnaðarstörfum á Alþingi sem formaður þingflokks Borgarahreyfingarinnar, Hreyfingarinnar og Pírata lætur af þingmennsku eftir rúmlega átta ára þingsetu. Þá hafa Elsa Lára Arnardóttir og Theodóra S. Þorsteinsdóttir tilkynnt að þær sækist ekki eftir endurkjöri. Elsa Lára hefur átt sæti á Alþingi í rúm fjögur ár og Theodóra tók sæti á Alþingi eftir alþingiskosningar í lok október á síðasta ári, en á þeim tíma gegndi hún embætti þingflokksformanns. Öllum þessum þingmönnum vil ég við þetta tækifæri þakka fyrir störf þeirra á Alþingi og óska þeim alls hins besta í framtíðinni.

Framtíð okkar sem gefum kost á okkur til endurkjörs er nú í höndum kjósenda. Allir komu þeir aftur, segir í laginu. Hugsanlega verður það ekki þannig í okkar tilviki. Kjósendur eiga nú valið.