148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:22]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Herra forseti. Kæru landsmenn. Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni hér rétt áðan, með leyfi forseta:

„Fátækt á einfaldlega ekki að vera til staðar í jafn ríku samfélagi og við eigum hér saman.“

Þessu er ég hjartanlega sammála. Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur talað á svipuðum nótum og hyggst vinna að því að uppræta fátækt barna á Íslandi. Það þarf væntanlega ekki að undirstrika það fyrir neinum hér inni hversu mikilvægt það er fyrir framtíð okkar allra að tryggja hag barna og sjá til þess að þau njóti þeirra tækifæra til að dafna sem þau eiga undantekninga- og skilyrðislaust rétt á.

En það er mikilvægt að hafa í huga að fátækt barna er bein afleiðing fátæktar foreldra. Það er óumflýjanleg staðreynd málsins því að það er einn og sami hluturinn. Það er ólíðandi að fólk hafi ekki aðgang að hollum og næringarríkum mat til að seðja hungrið, þaki yfir höfuðið og fötum sem bæði eru í passlegri stærð og hæfa árstíðinni. Margir taka þessum hlutum sem sjálfsögðum en fyrir allt of marga er þetta lúxus. Það er rétt hjá forsætisráðherra. Við erum rík þjóð. Slíkt á ekki að þurfa að viðgangast. Það, kæru þingmenn, er á okkar ábyrgð.

Forsætisráðherra talaði einnig um málamiðlanir sem fela í sér að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Þessir meiri hagsmunir virðast eiga að vera þeir að dreifa auðnum eða hagsældinni í ríkari mæli til almennings. En mig grunar að það snúist frekar um að standa vörð um óbreytt ástand. Eða að tryggja þennan stöðugleika sem alltaf er verið að tala um.

Gott og vel. En hverjir voru minni hagsmunirnir sem þurfti að fórna? Var það kannski stjórnarskráin — þar sem á að reyna að skapa samstöðu um ferli? Voru það auðlindir í almannaeign? Að þjóðin gæti krafist atkvæðagreiðslna? Aðskilnaður framkvæmdarvalds og löggjafans? Fjölmiðlafrelsi? Að þjóðin sé laus við sérhagsmuni og spillingu?

Kæru landsmenn. Ég hef áhyggjur af því að með því að leiða flokk til valda sem hefur síendurtekið staðið gegn lýðræðisumbótum og verið staðinn að því að misnota vald sitt hafi Vinstri hreyfingin – grænt framboð vanmetið hvað það er sem verður þjóðfélaginu sem heild til heilla til lengri tíma og munu algerlega missa marks þegar kemur að því að byggja upp traust á stjórnmálum og Alþingi og styrkja lýðræðið á Íslandi. Lykilatriði í styrkingu lýðræðisins er að tryggja lagaumhverfi sem gerir fjölmiðlum kleift að miðla upplýsingum sem teljast mikilvægar í pólitísku samhengi og eiga erindi til almennings. Það þýðir að ekki sé hægt að setja lögbann á fjölmiðil þegar miðlað er upplýsingum sem koma sér illa fyrir stjórnmálaflokk korteri fyrir kosningar. Traust á stjórnmálum og Alþingi felst í bættum vinnubrögðum og lýðræðislegum ferlum sem tryggja aðkomu almennings alls, ekki bara sérhagsmunaafla, að stefnumótun, samningu laga og ákvarðanatöku. Það á enginn að geta, í krafti fjármagns eða frændhygli, komið hagsmunamálum sínum á framfæri fram yfir hagsmuni almennings. Aðkoma almennings að ákvarðanatöku er gífurlega mikilvæg þar sem hún hefur þær afleiðingar að dreifa valdinu sem og ábyrgðinni. Með valdeflingu almennings drögum við úr spillingu og valdeflum á sama tíma þingmenn til að finna nauðsynlegt hugrekki til að knýja fram þær breytingar sem þörf er á til að geta mætt framtíðinni með áætlun sem þjónar heildinni og þar af leiðandi framþróun samfélagsins alls. Þetta eru meiri hagsmunirnir. Sérstaklega í ljósi þeirra stórkostlegu breytinga sem við stöndum frammi fyrir, ekki bara Íslendingar heldur mannkynið allt. Við verðum að þróast ef við ætlum að lifa þær af.

Það er nefnilega orðið tímabært að sækja hugrekkið og horfast í augu við ákveðnar grundvallarspurningar um gagnsemi þeirra kerfa sem við höfum sniðið okkur, hvort þau séu raunverulega að þjóna heildinni, og byrja að takast á við rót vandamálanna í stað þess að plástra mein sem eru inngróin og kerfislæg.

Mikilvægast er að byrja á efnahagskerfi sem grundvallast á hugmyndafræði um línulegan, óendanlegan hagvöxt á plánetu sem hefur ekki yfir óendanlegum auðlindum að ráða. Við lifum á tímum þar sem hætta steðjar að mörgum skilyrðum þess að þessi pláneta sem hýsir okkur og fæðir sé áfram falleg, gjöful og megnug þess að bera mannlegt líf, hættur sem nútímatækni er líklegast ófær um að laga, jafnvel þótt mikil áhersla væri lögð á það.

Þrátt fyrir þetta er mælikvarði okkar á árangur, velgengni og velferð, enn verg landsframleiðsla, magn þess varnings og þjónustu sem við sköpum án tillits til þess hver raunveruleg þörf er. Þannig látum við efnahagskerfið okkar vinna beinlínis gegn þeim kerfum sem við byggjum tilverurétt okkar á. Þetta er hættan sem að okkur steðjar. Þetta er stóra myndin.

Um leið og ég fagna því að ný ríkisstjórn hafi að markmiði að tryggja góð lífskjör til framtíðar fyrir venjulegt fólk græt ég þær lýðræðisumbætur sem hefur verið fórnað. Því sjaldan hefur ríkisstjórn þurft jafn mikið á aðstoð almennings að halda til að veita sér hugrekki, getu og vilja til að tækla rót þess risastóra vanda sem við stöndum frammi fyrir, til að geta raunverulega skilað góðum lífskjörum til framtíðar fyrir alla. — Takk.