148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Sagan á það til að endurtaka sig. Fyrir 35 árum hélt Vilmundur Gylfason eftirminnilega ræðu í umræðu um vantraust á ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens þar hann sagði m.a., með leyfi forseta:

„Núverandi ríkisstjórn stendur fyrir frið. Hún stendur fyrir þær sögulegu sættir sem Morgunblaðið boðaði á sinni tíð. Þar eru Alþýðubandalag, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur […]

En friðurinn í núverandi hæstv. ríkisstjórn er friður … utan um ekki neitt. Þetta er friður hins þrönga og lokaða flokkavalds, friður til varnar völdum og hagsmunum.“

Þetta var auðvitað þá — en þessi orð Vilmundar heitins eiga merkilega mikla samsvörun við nútímann. Vilmundur Gylfason var með sterkar skoðanir á samtíma sínum. Hann var ötull talsmaður frelsis og jafnréttis og talaði fyrir sígildum siðgæðishugmyndum. Hann taldi hófleg ríkisafskipti af atvinnulífinu til hagsbóta fyrir fjöldann og hann var mótfallinn því að ríkið væri að ráðskast of mikið með frelsi hvers einstaklings. Hann hélt því einnig fram að notkun hugtakanna „hægri“ og „vinstri“ í pólitískri orðræðu væri úrelt og þjónaði ekki framtíðinni. Þetta var 1982. En rauði þráðurinn í gegnum hans málflutning var valdið; dreifing valds og andstaða við vald á fárra höndum. Ég skil mætavel að karl faðir minn og fjöldi annarra Íslendinga hafi fylgt Vilmundi að málum.

Kæru landsmenn. Ég gæti rifjað upp hugmyndir, ræður og rit Vilmundar Gylfasonar í allt kvöld en það bíður betri tíma. Þó er mikilvægt að við gleymum ekki þeim fyrirmyndum, þeim einstaklingum sem hafa þorað og hreinlega dirfst að tala gegn valdinu, gegn sérhagsmunum, því gamla flokkskerfi og umgjörð íslenskra stjórnmála sem mörgum þykir úrelt og er vissulega gagnrýni verð. Vilmundur var einn af þeim. Hann var dýrmætur, hann var mikilvægur og hann var sannur.

Já, sagan á það til að endurtaka sig. Og nú, 35 árum eftir ræðu Vilmundar, vilja margir meina að aftur hafi náðst sögulegar sættir andstæðra póla í pólitík. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru saman í ríkisstjórn. Sú saga er hvorki óvenjuleg né ný af nálinni, en sú saga heldur nú áfram í boði Vinstri grænna enda er ekki laust við að ákveðinn afsökunartónn hafi verið sleginn í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra. Vissulega er pólitískt landslag einkennilegt þessa dagana. Það er vel skiljanlegt að kallað sé eftir breyttum áherslum í pólitík, krafa gerð um að flokkar geti starfað saman þvert á flokkslínur.

Við erum öll orðin frekar þreytt á þessu og kannski þess vegna er mögulega auðveldara að selja okkur hugmyndina um rótgrónu flokkana sem geta reyndar verið svo sorglega fyrirsjáanlegir. Allt á núna að gera fyrir alla og það má alls ekki rugga neinum bát, allra síst ef það kallar á umbætur eða kerfisbreytingar — hvað þá kerfisbreytingar hjá besta vini aðal.

En þrátt fyrir að pólitísk ró og friður á þingi sé af hinu góða skulum við hafa augun opin og sofna ekki á verðinum. Við megum ekki gleyma því hvers vegna við stöndum hér í dag, hvers vegna við bjóðum núna nýja ríkisstjórn velkomna í annað sinn á innan við ári. Við getum hvorki horft fram hjá þeirri ástæðu né sett pottlokið á önnur þau mál sem stjórnarflokkarnir eiga erfitt með að leysa sín á milli. Og við skulum muna til hvers við stígum öll yfir höfuð út í pólitík. Langflestir fara út í pólitík af hugsjón, eru með ólæknandi pólitíska veiru, því að stjórnmálin hafa endalaust aðdráttarafl. Þau hafa það. Við á þinginu viljum leggja okkar af mörkum til að auka lífsgæði og skapa betra samfélag. Þá reynir oft á hugsjónirnar, þá reynir oft á prinsippin.

Þetta ár er reyndar ágætt dæmi um það því að dæmin eru mýmörg þegar flett er upp í þingtíðindum. Þegar stór orð ýmissa þingmanna fyrr á árinu eru skoðuð, þá reyndar í minni hluta og sumir hverjir eru orðnir ráðherrar í dag, er ljóst að hugsjónir hafa vikið. Prinsipp hafa verið brotin á síðustu vikum. Það er hægt að kalla þetta hvað sem er, málamiðlanir, tilslakanir eða hvað annað, en prinsipp hafa verið brotin. Fram hjá því verður ekki litið.

Virðulegur forseti. Nú, sem aldrei fyrr, reynir á okkur sem lifum og störfum í stjórnmálum að líta líka inn á við, ekki eingöngu út frá því hver er í stjórn eða stjórnarandstöðu hverju sinni. Það er í okkar verkahring að hlúa að hinum raunverulegu innviðum. Á sama tíma er það í okkar verkahring að huga að þeim meinum sem þar leynast. Og hvernig samfélag viljum við svo skapa?

Í mínum huga er það ekki samfélag sem samþykkir ofbeldi og valdbeitingu né er það samfélag þar sem gagnsæi er lítið metið og setið er á skýrslum, setið á minnisblöðum og upplýsingum. Eftir #metoo-byltinguna, kærkomna byltingu, hljótum við í þinginu að vera sammála um mikilvægi þess að ráðast að rótum vandans og uppræta það kerfislæga samfélagsmein sem hefur fengið að grassera allt of lengi. Við verðum að spyrja hvað við getum lagt af mörkum í þeirri baráttu og þar þarf ríkisstjórnin að gera meira en að sýna vinalegan lit. Hér á þingi verðum við öll að halda hvert öðru við efnið.

Kæru landsmenn. Ég hef þá bjargföstu trú að við megum aldrei glata gleðinni né bjartsýninni og ég tek fram að ég er stolt yfir því að Katrín Jakobsdóttir sé orðin hæstv. forsætisráðherra. Það er ekki bara svolítið töff, heldur er hún mannkostamanneskja sem vonandi tekst að taka utan um, ekki bara stjórnarflokkana sem sannarlega veitir ekki af, heldur samfélagið allt. Væntingarnar eru vissulega miklar samhliða ábyrgð, en seta í ríkisstjórn á ekki sjálfkrafa að vera innan þægindarammans. Við vitum líka að myndin af ríkisstjórninni væri auðvitað mjög frábrugðin ef annar einstaklingur frá Vinstri grænum gegndi þessu sama embætti. Það sjá allir. Þessi stjórn hefði þá ekki orðið að veruleika og því má spyrja hversu stórt hlutverk málefnin leika í raun og veru. Það er nefnilega nokkuð ljóst að fyrir ríkisstjórnarflokkana voru stjórnarmyndunarviðræðurnar því að vissu leyti ákveðnir Hungurleikar; það að komast af, einfaldlega lifa af í stjórnmálum.

Nú höfum við nýjan hæstv. forsætisráðherra sem ég hef mikla trú á. Meðal annars þess vegna vil ég gjarnan gefa nýrri ríkisstjórn tækifæri á að sanna sig og sýna fram á að sagan endurtaki sig ekki, að friðurinn sem verið er að bjóða sé fyrir þjóðina alla en ekki til varnar völdum og hagsmunum líkt og Vilmundur orðaði það á sínum tíma.

Sjálfri finnst mér þetta áhugaverð tilraun þrátt fyrir að ákveðin íhaldssemi svífi hér yfir vötnum. Þetta er áhugaverð tilraun fyrir ríkisstjórnarflokkana og okkur öll sem lifum og hrærumst í hinum pólitíska veruleika. Tækifærin eru vissulega til staðar. Ríkisstjórnin tekur við góðu búi og hefur alla möguleika á að gera landið okkar og samfélag enn betra.

Við í Viðreisn munum einsetja okkur að halda uppi málefnalegri stjórnarandstöðu, styðja við góð mál, fylgja sannfæringu okkar og tala fyrir grundvallarhugsjónum Viðreisnar. Við skiljum mikilvægi málamiðlana og viljum, eins og fleiri, frið og fagmennsku en við ætlum að læra af sögunni. Meðvirkni er ekki í boði til þess eins að viðhalda völdum, viðhalda úreltum kerfum og sérhagsmunum.

Viðreisn mun taka afstöðu með frelsinu gegn forræðishyggju. Við veljum alþjóðasamstarf gegn einangrunarhyggju. Við viljum ábyrga fjármálastjórn sem sendir ekki reikninginn inn í framtíðina. Við segjum frjálslyndi í stað íhaldssemi, gegnsæi í stað leyndarhyggju. Við verðum hávær ef skerða á frelsi einstaklingsins og stöndum alltaf vaktina með almannahagsmunum gegn sérhagsmunum.

Þetta er skýrt, þetta er málefnalegt og þetta er einfalt. Að þessu getið þið gengið, góðir Íslendingar, með Viðreisn á Alþingi.

Ríkisstjórninni og Alþingi óska ég heilla og landsmönnum öllum farsældar á nýju ári.