148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:52]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Grunnstef ríkisstjórnarsáttmálans er málamiðlun. Sú áhersla kom einnig fram í ræðu hjá hæstv. forsætisráðherra fyrr í kvöld sem talaði um fórnir minni hagsmuna fyrir meiri þar sem það komi samfélaginu sem heild til góða. Í þessum orðum má lesa fögur fyrirheit um ábyrga stjórnunarhætti og aukið samráð til þess að auka farsæld fjöldans.

Um leið og ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum vil ég benda á að auka þarf farsæld allra, líta þarf til fólksins um allt land hvar sem það kýs að búa því að hver og einn skiptir máli en það er ekki sama hvernig það er gert. Því miður virðist ólíklegt að það náist með þeim málamiðlunum um kyrrstöðu sem stjórnarsáttmálinn boðar.

Ég þekki aðeins til heilbrigðiskerfisins og í samtölum mínum við starfsfólk þess hefur ítrekað komið fram að það telji eðlilegra að færa þjónustuna nær þeim sem þurfa á henni að halda. Bent er á að læknar og annað fagfólk séu þrátt fyrir allt hreyfanlegri en sjúklingarnir. Og þar sem ég bý á Akureyri vil ég nefna að þangað koma tveir sérfræðingar í krabbameinslækningum í hverri viku og sinna þar sjúklingum sínum. Þar sem ég er með hugann við Akureyri vil ég nota tækifærið og benda á að undanfarið hefur gengið vel að manna sérfræðingastöður við Sjúkrahúsið á Akureyri. Það sýnir að það er vel hægt að færa þjónustuna nær sjúklingum um allt land. Það sem þarf er skýr pólitísk stefnumótun í þá átt og vilji til að breyta kerfinu. Því miður virðist hvort tveggja skorta hjá þessari ríkisstjórn. Fram hefur komið að ríkisstjórnin ætli að skoða það að draga úr kostnaði sjúklinga við ferðir og uppihald. Úr þessu má skýrt lesa að áfram á að flytja sjúklinga, oftar en ekki fárveika, á milli landshluta eða réttara sagt á Landspítalann í Reykjavík með tilheyrandi kostnaði og áhættu í stað þess að flytja þjónustuna til sjúklinganna. Það er ekki hægt að skilja orð forsætisráðherra þannig að ganga eigi í að breyta heilbrigðiskerfinu á nokkurn hátt. Kerfið mun því áfram þjóna best sjálfu sér og það er röng hugsun. Kerfum er ætlað að skapa ramma um samfélagið, þau þurfa því að taka breytingum með samfélaginu. Þau eiga að laga sig að þörfum samfélagsins og landsmönnum öllum.

Annað atriði er að engin breyting verður gerð á staðsetningu Landspítala – háskólasjúkrahúss þrátt fyrir að allar forsendur fyrir staðarvali séu brostnar. Áform eru um að halda áfram hringavitleysunni við Hringbraut í stað þess að finna þjóðarsjúkrahúsinu besta stað til framtíðar sem gagnast betur sjúklingum, starfsfólki og aðstandendum. Staðsetning þjóðarsjúkrahúss snýst ekki aðeins um skipulag og byggingar því að sjúkrahús snúast um tilfinningar, líf og dauða, gleði og sorg. Þess vegna er mikilvægt að vanda til verka og láta skynsemi ráða stefnunni, en ekki áratugagamla og úrelta kerfishugsun.

Heilbrigðismál eiga að vera í forgangi, heilbrigðiskerfið á að vera fyrir fólkið sem á því þarf að halda og ríkisstjórnin þarf að þora að breyta kerfinu. Aðeins í slíkri hugsun felast raunveruleg fyrirheit um ábyrga stjórnunarhætti, aukið samráð og frekari samvinnu. — Takk fyrir og gleðileg jól.