148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[22:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Og vondir. Píratar hafa stundum þótt róttækir. Allur gangur er á hvort það teljist flokki til skammar eða tekna. Það breytist líka oft með tímanum hvað þykir róttækt og hvað ekki. Jafnrétti kynjanna eins og við skiljum það í dag hefur í gegnum mestalla söguna þótt róttækt og reyndar fráleit pæling. Hún þykir sjálfsögð í dag, jafnvel þótt enn sé langt í land.

Árið 2013 þótti mörgum stefna Pírata um afglæpavæðingu í vímuefnamálum róttæk. Núna þykir hún næstum því íhaldssöm, og kominn tími til. Hvort kalla eigi nýja stjórnarskrá róttækt mál eða ekki er svo sem enn meira álitamál, enda virðist sú hugmynd einhvern veginn hafa verið bæði sjálfsögð og róttæk frá lýðveldisstofnun. Þetta er ekki alveg klippt og skorið.

Mig langar því að varpa hér fram þremur fyrstu liðunum úr grunnstefnu Pírata til íhugunar:

„1. Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.

2. Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir talsmenn hennar eru.

3. Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.“

Nú vona ég að einhverjum sé farið að leiðast þessi lestur því að þetta virðist allt saman vera almenn skynsemi. Það er ekkert róttækt í þessum góðu stefnuliðum, eða svo virðist vera. En ég ætla að vera ósammála. Ég vil nefnilega meina að þetta séu samt sem áður ekkert minna en róttækustu stefnumálin í íslenskri pólitík. Ég ætla að reyna að færa nokkur rök fyrir því.

„Vel upplýstar ákvarðanir“ hljómar rosalega vel alveg þar til fólk finnur ástæðu til að gera hlutina strax. Þá verður róttækt að skoða hlutina betur. Að gefa hugmyndum séns sem í fyrstu virðast óæskilegar hljómar líka vel — alveg þar til pólitískur andstæðingur segir eitthvað sem auðvelt er að dæma og gera lítið úr. Þá verður róttækt að velta hugmynd andstæðingsins alvarlega fyrir sér. Að taka afstöðu til hugmynda án tillits til þess hvaðan þær komi hljómar vel, alveg þangað til Sjálfstæðisflokkurinn talar um fiskveiðar eða Framsókn talar um efnahagsmál, eða Píratar um nýja stjórnarskrá. Þá verður róttækt að taka undir með andstæðingnum. Að endurskoða fyrri skoðanir. Taka kjósendur því ekki sem sjálfsögðum hlut að þekkja fyrir fram skoðanir frambjóðenda? Hvað er meiri skömm en það að segja eitthvað í andstöðu við það sem áður var skrifað? Það er róttækt að skipta um skoðun í pólitík.

En hvers vegna eru þetta róttækar hugmyndir í pólitík en ekki í daglegu lífi? Það eru sjálfsagt margar ástæður fyrir því. Meðal annars vegna þess að það er svo auðvelt að dæma og gera lítið úr hugmyndum annarra. Það er svo mikilvægt í pólitík að gefa fyrst tóninn, að segja sína útgáfu af sögunni fyrst. Við erum óhjákvæmilega í einhvers konar vinsældakeppni, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ég hugsa nú að flestum okkar líki það verr. En það sem er verra er að stundum er beinlínis gerð krafa á stjórnmálamenn um að tileinka sér ósiði sem eru á skjön við þessa fyrrnefndu almennu skynsemi. Stundum er ósiðanna beinlínis krafist með svikabrigslum og öllu tilheyrandi.

Ég legg til að stjórnmálamenn þurfi að velja vel úr þeim kröfum. Krafan um að stjórnmálamaður myndi sér skoðun og taki ákvarðanir án þess að fá tíma og næði er krafa um heimskulegar ákvarðanir. Krafan um að stjórnmálamaður hafni sjálfkrafa hugmyndum frá tilteknum flokkum er krafa um að hunsa sjónarmið sem eru andstæð manns eigin. Krafan um að stjórnmálamaður skipti aldrei um skoðun er krafa um stjórnmálamann sem hættur er að læra nýja hluti. Gildi á borð við þau að taka upplýstar ákvarðanir, hlusta á mótrök og taka þau til greina, bera virðingu fyrir staðreyndum, jafnvel þegar þær eru ekki í samræmi við manns helstu óskir, og að geta skipt um skoðun, eru jafnan kölluð almenn skynsemi. En þegar á hólminn er komið reynist sú skynsemi róttæk. Breytum því. Breytum því hér. Breytum því núna í dag.

Ég legg til að við gerum skynsemina almenna, kæru landsmenn. Ég legg til að við reynum það öll.

Að lokum, virðulegi forseti, legg ég til fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir. [Hlátur í þingsal.] — Góðar stundir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)