148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[10:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefði verið betra að hæstv. ráðherra geymdi þessa frasa og flytti þá á fundi í Valhöll og notaði tímann frekar til að svara spurningunum sem hann var spurður, um skattstefnu ríkisstjórnarinnar og ekki hvað síst þá staðreynd að hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, kynnir hér frumvarp þar sem hann leggur fyrst og fremst áherslu á að hækka álögur; hækka skatta á bæði almenning og fyrirtæki — því að á hverjum lendir það þegar kolefnisgjald er hækkað um 50%? Og það er bara byrjunin. Það lendir að sjálfsögðu á almenningi í landinu, bæði beint, með því að dýrara verður að ferðast, og einnig með hækkun lána heimilanna.

Hæstv. ráðherra segir að það sé sjálfsagt mál að gefa sér góðan tíma í þinginu til að ræða það með hvaða hætti áherslur Sjálfstæðisflokksins birtast í þessu stjórnarsamstarfi. Með því á hann varla við langan tíma, því að ekki þarf langan tíma til að fara yfir það hvernig áherslur Sjálfstæðisflokksins birtast í þessu stjórnarsamstarfi. Þær er varla að finna. Jú, í utanríkismálum, segir í hæstv. ráðherra. Sjálfstæðisflokkurinn fær að hafa skoðanir á því hvernig hlutirnir eru í útlöndum, en hér heima ætla Vinstri grænir að ráða för.

Hæstv. forseti. Getur hæstv. fjármálaráðherra svarað því hvar í þessu frumvarpi hans má finna áherslur sem eru í samræmi við það sem hæstv. ráðherra hefur talað fyrir í mörg ár um mikilvægi þess að draga úr álögum á almenning í landinu? Það er ekki að sjá að slíkt birtist í frumvarpinu. Þvert á móti: hækkanir, hækkanir og hækkanir. Og þó að hæstv. ráðherra nefni hér tiltekna eina lækkun á tryggingagjaldinu á árinu 2016 þá var útlistað í því fyrirheiti sem hann gaf í byrjun þess árs með hvaða hætti gjaldið yrði lækkað skref fyrir skref. Fyrsta skrefið kann að hafa verið stigið, en hvenær ætlar hæstv. ráðherra að stíga næstu skref?