148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að við nefnum víða í tengslum við fjárlagafrumvarpið, og reyndar í stjórnarsáttmálanum, að það skiptir miklu máli að leggja áherslu á stöðugleikann, á jafnvægi í efnahagsmálum, sem mun þá í framhaldinu tryggja stöðugt verðlag og lægra vaxtastig en við höfum mátt venjast. Þegar við horfum til þess hvar við erum stödd í dag og hvað hefur gerst undanfarin ár hefur reyndar náðst gríðarlega mikill árangur á þessu sviði. Og fyrst vaxtastigið í landinu er nefnt hér leyfi ég mér að vekja athygli á því að það er erfitt að finna annan tíma þar sem raunvaxtastig húsnæðislána hefur verið jafn lágt og einmitt í dag. Mér er til efs að nokkru sinni hafi raunvaxtastigið verið lægra frá því að verðtryggingin var tekin upp en einmitt í dag. Þannig að við erum að ná auknum stöðugleika. Og við höfum verið með verðbólguna rétt við og undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í í kringum fjögur ár núna samfellt.

Hér er vísað til orða sem féllu í umræðu um fjármálastefnuna síðastliðið vor. Þegar sú stefna var tekin til atkvæðagreiðslu var því haldið fram að það væri allt of mikið aðhald. Ég benti á í því samhengi að á árinu 2017 hefðu gjöldin vaxið um 8,5% og að það mætti þess vegna halda því fram, ef eitthvað, að það væri fulllítið aðhald í ríkisfjármálum. Undir var 8,5% vöxtur útgjaldanna á árinu 2017. Hv. þingmaður heldur því fram að við séum með einhverja kúvendingu í nýju fjármálastefnunni. Það er af og frá. Við skilum góðri heildarafkomu; þó að hlutur ríkisins lækki örlítið í stefnunni á árinu 2018 og áfram getur hv. þingmaður varla haldið því fram að það sem þar er undir, lækkun á heildarafkomu ríkissjóðs (Forseti hringir.) um 0,2 prósentustig af landsframleiðslu, sé einhver kúvending. Eða hvað? Eða trúir hv. þingmaður því að 5 milljarðar til eða frá í 2.500 milljarða hagkerfi muni velta stórum fjöllum?