148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að spyrja um aðgengi að fjárlagafrumvarpinu. Nú eru uppi óvenjulegar aðstæður og það hefði hjálpað mjög mikið að fá aðgang að fjárlagafrumvarpinu fyrr. Það hefði auðveldlega verið hægt t.d. að fá rafrænt eintak í staðinn fyrir að þurfa að bíða eftir prentuðu eintaki sem við fengum ekki fyrr en síðdegis á miðvikudag.

Hvers vegna var ekki hægt að gefa þingmönnum aðgang að fjárlagafrumvarpinu fyrr en þá?

Talað hefur verið um fjármálastefnuna, sem ég held á, og var lögð fram meðfram fjárlögunum en það fjárlagafrumvarp sem er lagt fram er byggt á þeirri stefnu, sem er ósamþykkt frá Alþingi. Hið rétta væri að ríkisstjórnin legði fram fjárlagafrumvarp samkvæmt gildandi stefnu, gildandi fjármálaáætlun. Henni er einfaldlega ekki heimilt að gera neitt annað. Það er Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið. Ef það á að bregða frá fjármálastefnunni eða fjármálaáætluninni verður fyrst að samþykkja nýja fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Mig langar að fræðast um það hvaða heimildir ríkisstjórnin telur sig hafa til að fara gegn samþykktri stefnu og áætlun Alþingis.

Ég vil líka víkja að því sem mér finnst vanta, því að síðan getur Alþingi gert ýmislegt. Í fjárlagafrumvarpinu finnst mér vanta tilfinnanlega aðgerðir í húsnæðismálum. Því til viðbótar er ekki fullfjármögnuð samgönguáætlun, sem er líka samþykkt stefna frá Alþingi. Það ætti einfaldlega að vera verkefni ríkisstjórnar að fullfjármagna það sem Alþingi hefur á annað borð samþykkt. Hvað er í gangi hérna, ef ég má spyrja? Af hverju getur ríkisstjórnin ekki farið eftir því sem Alþingi hefur samþykkt?