148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ef það er ekkert sem skiptir meira máli en efnahagslegur stöðugleiki og ef við eigum að samþykkja fjárlög sem eru ekki samkvæmt gildandi fjármálastefnu og fjármálaáætlun, sem við höfum umsagnir sérfræðinga um, hvaða áhrif höfum við þá á efnahaginn? Það er alveg rétt, ég skal taka undir það, að Alþingi ræður síðan hvað það gerir í meðhöndlun fjárlagafrumvarpsins, enda er fjárveitingavaldið hérna. En ríkisstjórnin sjálf hefur ekki leyfi til að fara fram úr því sem Alþingi hefur samþykkt. Það er einfaldlega rétt röð aðgerða að Alþingi fái sérfræðiálit um hvaða áhrif breytingarnar hafa, hvað verið er að leggja fram umfram fjármálastefnu í fjárlögunum eins og þau fara, umfram fjármálaáætlun og fjármálastefnu. Það skiptir einfaldlega miklu máli því að við erum ekki kosin sem sérfræðingar, við erum kosin út á sannfæringu okkar eða samvisku. Til þess að geta tekið ákvarðanir sem byggjast á og styðja þá sannfæringu þurfum við að hafa þær upplýsingar sem við getum fengið frá sérfræðingum í málinu.

Áðan var talað um að verið væri að setja met í hækkunum. En það verður jafnframt að skoðast að verið er að lækka hlutdeild ríkisins hvað varðar verga landsframleiðslu. Það er væntanlega eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn gæti hreykt sér af, að hafa minnkað umfang hins opinbera í heildarkökunni. Við verðum að hafa í huga að við erum kannski að slá met í krónutölum og svoleiðis en að hlutfalli til er verið að minnka umsvif hins opinbera. Það er oft voðalega flókið að bera saman prósentur og tölur.

Annað sem ég myndi vilja veita athygli: Ef fjármálaráðherra er svona ánægður með núverandi fjárlagafrumvarp, (Forseti hringir.) var hann þá ekki ánægður með síðasta fjárlagafrumvarp, síðan í september? Ég skil þetta ekki alveg.