148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki allt leyst á fyrsta ári — ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður viti að í fylgiritinu er talað um áætlun til 2020, þannig að þarna eru tölur sem breytast frá árinu 2018 til 2019. Það eru hækkanir sums staðar, eins og forsætisráðuneytið, utanríkismál, þróunaraðstoð, byggðamál, heilsugæsla og ýmislegt. Það er alveg hægt að fylgjast með því hver áætlun ríkisstjórnarinnar er til 2020 í fylgiriti fjárlaga. Gagnrýnin snýst væntanlega að öllu leyti um þá heild. Jú, ekki er hægt að leysa allt á fyrsta ári en gagnrýnin snýr ekki bara að því ári heldur heildinni eins og hún lítur út.

Ég nefndi áðan meðaltal OECD varðandi menntamálin. Samkvæmt fylgiritinu er hækkun í ár, það er hækkun 2019 en engin 2020; samt á að ná markmiðunum 2020. Það bendir til þess að búið verði að ná hækkuninni 2019, alla vega skil ég það þannig. Það er líka ýmislegt sem lækkar 2019 og 2020, t.d. lækkar húsnæðisstuðningur um 2 milljarða í heildina. Vaxtabætur lækka um 2,4 milljarða miðað við 2017. Mér finnst ekki nema eðlilegt að verið sé að gagnrýna heildina, ekki bara tölurnar 2018.

Mig langar einnig að fræðast um það hvað hv. þingmaður á við með því að hún vonist til að fjárlagafrumvarpið batni í meðförum þingsins. Á hvaða hátt gæti fjárlagafrumvarpið batnað miðað við að ríkisstjórnin er nýbúin að leggja það fram? Hún lagði mjög mikla vinnu í það en á skömmum tíma til að koma því í gott form og er með plön til 2020 um það hvernig á að verja peningum í ýmis málefnasvið. Hvað gæti batnað?