148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka þingmanni andsvarið. Ég velti fyrir mér hvort honum finnst frumvarpið svo frábært að það þurfi ekki að taka breytingum; ég á ekki endilega von á því. Það er auðvitað þannig eins og hann þekkir — við höfum starfað saman í fjárlaganefnd — að breytingar hafa gjarnan verið gerðar á frumvörpum; ég held í hvert einasta skipti, ekkert óskaplega miklar en alltaf einhverjar. Við skulum bara sjá til hvort breytingar koma fram, bæði frá meiri hluta og minni hluta, sem geta skilað einhverju. Þegar við förum að fjalla um það hvort eitthvað hefur fallið milli skips og bryggju sem ekki var ætlunin að yrði í þessari fljótaskrift — það verður að segjast eins og er að það er svo í sjálfu sér; ég held að enginn geti neitað því, þótt byggt sé á grunni sem var til staðar.

Varðandi fylgiritið þá þekkjum við það líka að ríkisfjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar kemur til með að hafa áhrif á fylgiritið sem lagt verður fram með fjárlögum á næsta ári. Þá verða ráðherrar búnir að setja sig inn á málin og væntanlega búnir að sjá fyrir sér hvernig þeir myndu vilja marka sín spor. Það gerist ekki á tíu dögum að öllu leyti, það vitum við. Þess vegna er þetta áætlun, eins og kemur þarna fram. Fylgiritið tekur að sjálfsögðu breytingum þegar við verðum búin að fjalla um það í fjárlaganefnd.

Þetta er áætlun sem við leggjum hér fram. Ég hef trú á því að ráðherrar eigi eftir að marka sín spor, bæði með framlagningu ríkisfjármálaáætlunar og eins þegar kemur að næstu fjárlögum sem verða að sjálfsögðu, eins og ævinlega, með uppfærðu fylgiriti.