148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um gott fyrsta skref, eins og ég sagði áðan, en hæstv. fjármálaráðherra talar um að ekki verði stigin svona stór skref á næstu árum enda þurfi að gæta sín þegar hagsveiflan sé á niðurleið. Hv. þingmaður er því bara glöð með það sem hér er gert þó að hún hafi sjálf fyrr á þessu ári mælt fyrir fyrsta skrefi upp á 42 milljarða árið 2018. En hún er bara nokkuð dús við 15 milljarða og ánægð með að öryrkjar eigi enn að bíða og að jöfnunartækin séu enn veikt?

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er vanur fjárlaganefndarmaður: Eru 15 milljarðar ekki sú upphæð sem oft kemur til viðbótar á milli umræðna og að það hafi t.d. gerst síðast þegar við fórum í gegnum breytingartillögur við fjárlagafrumvarp? Ég spyr: Finnst henni ekki líklegt að breytingartillögur við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar hefðu hljóðað upp á breytingar upp á um það bil 15 milljarða í meðförum þingsins?