148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir fína ræðu og gott yfirlit, mér finnst það gefa góð fyrirheit um þá vinnu sem fram undan er undir hans forystu í fjárlaganefnd. Það er rétt að kosningar bjóða upp á ýmislegt, m.a. upp á þessi fjárlög, og ég ítreka það sjónarmið okkar í Viðreisn að þetta er heitur kokteill að því leytinu til að verið er að auka útgjöld annars vegar og boða síðan skattalækkanir hins vegar. Sagan segir okkur að það er ekki góð efnahagsstefna. En það er önnur saga.

Ég vil spyrja hv. þingmann þriggja spurninga. Ég átta mig ekki á því hver stefna ríkisstjórnarinnar varðandi innheimtu auðlindagjalda er. Það þarf að endurskoða auðlindagjöldin á sjávarútveginn og ég vil gjarnan fá að heyra hvernig hv. þingmaður sér það fyrir sér. Það hlýtur að hafa verið rætt innan stjórnarflokkanna hvernig auðlindagjöldin eigi að þróast þegar kemur að sjávarútvegi.

Kolefnisgjöldin, þar er boðuð 50% hækkun. Ég hef annars vegar heyrt hæstv. fjármálaráðherra segja að ekki verði frekari hækkun á meðan þingmenn frá Vinstri grænum hafa boðað að þetta sé rétt upphafið á ákveðinni vegferð.

Í þriðja lagi eru það samgöngumálin á suðvesturhorninu. Við erum bæði þingmenn Suðvesturkjördæmis, þess mikilvæga kjördæmis, stærsta kjördæmisins, þ.e. þess fjölmennasta, Kragans. Ég vil gjarnan heyra af því vegna þess að þörfin er upp á allt að 70 milljarða til að bæta í nýframkvæmdir á þessu svæði. Það er eiginlega engin aukning í nýjar samgönguframkvæmdir, nú á milli ára, á þessu svæði. Síðan hefur hæstv. samgönguráðherra útilokað að aðrar leiðir verði skoðaðar frekar. Hvernig sér hv. þingmaður samgöngumál á suðvesturhorninu þróast samkvæmt þessu frumvarpi?