148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir hans innlegg. Spurningarnar eru mjög brýnar. Það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn er að fara í stórsókn er varðar menntamálin. Við erum að auka framlög til háskólastigsins og nú þegar hefur háskólaráð Háskóla Íslands lýst yfir mikilli ánægju með þessar auknu áherslu okkar þar sem við ætlum að ná OECD-meðaltalinu, þ.e. fjárframlögum á hvern nemanda. Hann spyr hvar þessi mál standi núna. Við höfum unnið það þannig í ráðuneytinu að við erum búin að framreikna hvað þurfi til til ársins 2020. Það kemur að vísu ekki fram í fylgiritinu. Mitt fólk í ráðuneytinu segir mér að það eigi eftir að uppfæra tölurnar í fylgiritinu. En það lítur þannig út að við getum náð þessu OECD-meðaltali með þeim fjármunum sem við ætlum að úthluta.

Áherslurnar? Hvernig ætlum við að fara út í þetta? Það sem við munum gera er að leggja aukna áherslu á kennslu, á rannsóknir, á vísindastarf og á að styrkja alþjóðasamstarf. Annað sem við viljum gera, og hafinn er undirbúningur að, er að endurskoða reiknilíkanið til að gera það skilvirkara. Við erum í samstarfi við yfirvöld í Hollandi og Noregi og tökum mið af því sem er að gerast þar.

Varðandi framhaldsskólastigið erum við með auka 400 milljónir inn í það. Höfuðáhersla verður lögð á að styrkja iðn- og verknám. Ég held að brýn þörf sé á því. Við sjáum að útskrifaðir nemar úr iðn- og verknámi á Íslandi eru mun færri en til að mynda í Noregi. Að þessu viljum við vinna og þetta viljum við bæta.