148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessar athugasemdir og hugsanir hans um hvernig við getum bætt íslenskt skólastarf. Varðandi iðn- og verknámið viljum við beita okkur fyrir því að reiknireglan sé þannig að raunverulegur möguleiki sé á því að fjölga nemendum í iðn- og verknámi. Það er skýr stefna þessarar ríkisstjórnar. Við viljum gera þetta. Því eitt af því sem við sjáum, og er mjög einkennandi fyrir íslenskt skólastarf, er brotthvarfið. Það virðist vera þannig að það sé mun meira en til að mynda á Norðurlöndunum. Ég tel sjálf að ein skýringa þessa sé að við erum ekki með nógu mikla fjölbreytni hvað þetta varðar. Ég mun beita mér fyrir því.

Varðandi kennaraskortinn er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni. Þetta er ein stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir. Það þjóðfélag sem getur ekki búið svo um hnútana að kennarar vilji vera í sinni grein, þarf verulega á því að halda að líta í eigin barm og gera betur.