148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:20]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Virðulegi forseti. Annað árið í röð vinnum við að setningu fjárlaga við afar sérstakar og knappar aðstæður. Í fyrra voru þetta einstakar aðstæður, það var enginn virkur meiri hluti heldur var byggt á frumvarpinu sem þáverandi ríkisstjórn hafði unnið.

Nú ræðum við frumvarp til fjárlaga 15. desember, rétt tveimur vikum fyrir áramót; frumvarp sem lagt er fram af nýjum meiri hluta á Alþingi; frumvarp sem þó er að nokkru leyti byggt á frumvarpi ríkisstjórnar sem fór frá völdum rétt eftir að það var lagt fram í september án þess einu sinni að það næðist að ljúka 1. umr. Í nýju fjárlagafrumvarpi, sem hér er lagt fram, eru ýmsar hugmyndir lagðar til hliðar sem voru í fjárlagafrumvarpinu í september þannig að menn eru að ræða ýmislegt. Við höfum farið vítt og breitt í dag yfir það. Ég ætla ekki að telja það upp, mig langar að fara svolítið aðra leið hér á eftir. En það er ljóst við þessar aðstæður að vinna fjárlaganefndar á næstu dögum er kapphlaup við tímann.

Breyttar áherslur eru í frumvarpinu varðandi heilbrigðismálin, það er bætt verulega í. Mikilvægt er að hafa í huga að unnið verði áfram eins og unnið hefur verið á undanförnum árum, þ.e. að ekki verði ráðist í að auka framlög nema vel sé skilgreint til hvers eigi að verja fjármunum. Vísa ég þar í ráðgjöf þeirra sem unnið hafa með íslenskum stjórnvöldum í rekstri Landspítalans og í það sem landlæknir hefur bent á á undanförnum mánuðum og misserum.

Það getur verið fróðlegt að skoða í sögulegu samhengi hvernig útgjöld ríkisins hafa þróast á undanförnum árum. Þegar þróun útgjalda ríkissjóðs frá 2010, og með útlögðu nýframlögðu fjárlagafrumvarpi 2018, er skoðuð nánar, án vaxtagjalda og óreglulegra liða og málefna fatlaðra sem voru færð til sveitarfélaganna árið 2011, voru þau árið 2010 tæpir 449 milljarðar en verða tæpir 711 milljarðar kr. árið 2018. Hækkunin nemur 58% og á sama tíma má áætla að hækkun neysluvöruverðsvísitölu sé um 25%. Þannig hafa regluleg útgjöld hækkað um 149 milljarða kr., þ.e. um 33% að raungildi á átta árum. Það verður að teljast ólíklegt að slík hækkun eigi sér eitthvert fordæmi frá fyrri tíð.

Í þessu samhengi eru síðustu tvö ár mjög sérstök. Fyrir þetta ár minnir mig að um 8,5% hafi verið samþykkt í fjárlögunum í desember í fyrra, fyrir árið 2017; gjaldahækkanir í rekstri ríkisins að raungildi. Mér sýnist þetta vera á svipuðum nótum núna þannig að um er að ræða tvö ár án fordæma; það er kannski eitt og eitt ár áður en þau eru mjög fá.

Áætlað er að skuldir ríkisins við áramót verði tæplega 900 milljarðar og eitt af meginmálum ríkisstjórnarinnar er að halda áfram að greiða niður skuldir og lækka vaxtakostnað. Á það hefur hins vegar verið bent að nauðsynlegt sé fyrir ríkið að skulda um það bil 400 milljarða til að halda uppi virkum skuldabréfamarkaði á Íslandi. Það eru því kannski 500 milljarðar sem hægt er að greiða niður af skuldum ríkisins til að fara niður að því marki sem talað er um sem markaðslegar forsendur til að halda uppi virkum skuldabréfamarkaði. Hins vegar skal hafa í huga að ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkisins eru í dag tæpir 700 milljarðar og því liggur fyrir að stórt verkefni á komandi árum í ríkisfjármálum snýr að þeim þætti. Á móti skal á það bent að ríkissjóður á verðmætar eignir bundnar í bankakerfinu.

Hér á landi hefur viðskiptajöfnuður verið jákvæður sl. 14 ársfjórðunga, þ.e. síðan á fyrsta ársfjórðungi 2014. Við höfum verið að upplifa ákaflega hagstæða tíma í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar. Þar hefur ferðaþjónusta komið sterkt inn og verið í aðalhlutverki. Á undanförnum árum höfum við upplifað ótrúlegan vöxt í komum erlendra ferðamanna til Íslands sem hefur haft gríðarleg áhrif á efnahagslíf landsins. Það eru ekki svo mörg ár síðan nánast einungis voru fluttar fréttir af vöruskiptajöfnuði þjóðarinnar en lítið var horft til þjónustujafnaðarins; hann var ávallt neikvæður og tölurnar lágar í samanburði við vöruviðskiptin.

Frá árinu 2010 hefur þjónustujöfnuður orðið jákvæðari með hverju árinu þannig að segja má að umskipti hafi orðið í gjaldeyristekjum þjóðarinnar á síðustu árum. Í þjóðhagsspá Íslandsbanka fyrir árin 2017–2019, sem bankinn birti undir heitinu Efnahagur í aðflugi, — ekki amalegt fyrir flugumferðarstjórann, þetta heiti á þjóðhagsspá bankans — kemur m.a. fram að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu eru áætlaðar 45% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar á þessu ári. Að mínu mati má segja að ferðaþjónustan sé orðin einn af helstu áhrifavöldunum í þjóðarbúskapnum á Íslandi, ef ekki sá helsti.

Í þessu samhengi langar mig að minnast á hagspá Landsbankans frá því í lok nóvember. Þar má finna áhugaverða mynd sem sýnir þær ótrúlegu breytingar í sögulegu samhengi sem orðið hafa á undanförnum átta til níu árum þegar hlutfall útflutnings af landsframleiðslu er skoðað. Um áratugaskeið hefur þetta hlutfall verið um 30% en hefur á síðustu árum vaxið stöðugt með hverju ári. Þannig var þetta hlutfall um 45% árið 2016. Að mínu viti er þessi þróun ein helsta ástæðan fyrir þeim miklu breytingum sem orðið hafa í efnahagslífi þjóðarinnar á undanförnum árum, ef ekki sú helsta. Þessi nýi veruleiki hefur kannski helst haft mikilvæg áhrif á að styrkja ríkisfjármál þjóðarinnar.

Í þessu samhengi er rétt að geta þess hversu stór og mikilvægur íslenskur flugrekstur er. Íslenski flugflotinn hefur tvöfaldast frá 2010, árinu sem Eyjafjallajökull gaus. Þá var Icelandair með 12 vélar í rekstri og Iceland Express 14. Í dag eru Icelandair og Wow Air með rétt um 50 farþegaflugvélar í rekstri og áætlanir gera ráð fyrir töluverðri fjölgun á næstu árum. Hér er rétt að hafa í huga að u.þ.b. 35–40% af gjaldeyristekjum í ferðaþjónustu koma frá íslenskum flugrekstri. Icelandair og Wow Air flytja stærsta hluta þeirra erlendu ferðamanna sem sækja Ísland heim.

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur verið vaxandi umræða í samfélaginu um kerfislæga áhættu flugreksturs í íslensku efnahagslífi, samanber ráðstefnu Landsbanka Íslands í september sl. Þess má geta að við komum inn á þessi mál í meirihlutaálitinu í ríkisfjármálaáætluninni í maí, reyndar notuðu menn önnur orð þar.

Í skýrslu Oxford Economics um flugsamgöngur á Íslandi, sem unnin var árið 2011, kom fram að íslenskur flugrekstur var talinn standa undir 6,6% af landsframleiðslu hér á landi árið 2010. Í dag telja þeir sem til þekkja að það hlutfall hafi hækkað umtalsvert á undanförnum árum. Þar eru menn að tala um að 12–15% af landsframleiðslu landsins tengist flugrekstri. Það er ágiskun dagsins í dag.

Að sjálfsögðu er rétt að gleðjast þegar vel gengur en á sama tíma er þó rétt að hafa varann á sér og vera gagnrýninn. Ég legg því áherslu á að þörf sé á betri rannsóknum og greiningarvinnu í efnahagslífinu á þáttum sem snúa að ferðaþjónustunni og þá einnig flugrekstrinum. Það eru mjög takmarkaðar upplýsingar til og engan veginn um þær ótrúlegu breytingar og umsnúning sem orðið hefur í efnahagslífi þjóðfélagsins sem tengist þessum málum á undanförnum átta til níu árum. Nýr veruleiki blasir við og getur haft og hefur haft gríðarleg áhrif á rekstur ríkisins og ríkisfjárlögin og náttúrlega líka tekjumegin, beggja megin við. Það er forgangsverkefni fyrir okkur sem vinnum í fjárlaganefnd að átta okkur á því umhverfi sem er í landinu tengt þessum hlutum.

Ég vildi koma inn á þetta vegna þess að ég tel þetta eitt af mikilvægustu málum í efnahagslífi þjóðarinnar, þ.e. að ná utan um þessa hluti; að við höfum betri vitneskju, rannsóknir og greiningar á því um hvað efnahagslíf þjóðarinnar er raunverulega farið að snúast.

Síðan fagna ég nýju útboði á evruláni í vikunni. Við fengum hagstæðustu kjör evruláns sem nokkurn tímann hafa fengist, í beinu framhaldi af nýju lánshæfismati Fitch í síðustu viku. Því ber að fagna enda mun þetta hafa gríðarleg áhrif á fjármögnun ríkisins á komandi árum.

Ég er alveg að klára tímann þannig að ég kemst ekki lengra að sinni. Vonandi næ ég að svara einhverjum andsvörum.