148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég á alveg í sömu vandræðum með að hafa tölurnar í hausnum af því að þær eru ansi margar og nýjar. Ég vonaðist til að fá yfirsýn yfir það fjármagn sem færi út fyrir rammann og fá kannski smávægilegar útskýringar af því að viðkomandi þingmaður er í fjárlaganefnd og þekkir þetta aðeins betur en ég þar sem hann er innan stjórnarflokkanna.

Nú hefur mikið verið talað um breytt vinnubrögð. Mér finnst alla vega nauðsynlegt að reyna að gera hlutina eins og á að gera þá, að fjárlögin byggist á fjármálaáætlun sem byggist á fjármálastefnu. Þá er ekki eðlilegt að byrja á fjárlögunum sem setja tóninn fyrir fjármálastefnuna og fjármálaáætlunina, eins og ég nefndi. Þá erum við ekki komin með álit sérfræðinga á efnahagslegum þáttum (Forseti hringir.) sem fjárlögin taka til.