148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið hjá hv. þingmanni. Það var meginþunginn í ræðu minni hér áðan, að það vantar miklu fleiri rannsóknir, þekkingu og greiningarvinnu, hvort sem það er í ferðaþjónustu eða vítt og breitt í kerfinu, þegar við erum að taka ákvarðanir um skattstofna og aðra hluti. Það átti við þegar við ræddum hækkanir á virðisauka í byrjun árs, þetta sem ég er að segja, það vantar greiningarvinnuna, hver áhrifin verða.

Varðandi kolefnisgjöldin: Í frumvarpinu sem lá fyrir í september var talað um 4,6 milljarða í kolefnisgjöld. Í þessu fjárlagafrumvarpi eru það 1,6 milljarðar. Það hefur dregið verulega úr.

Eins og ég sagði í ræðu minni í fyrra andsvari þá hefði ég gjarnan viljað vita hvernig þetta lendir á íbúum á ólíkum landsvæðum, hvað þetta raunverulega þýðir. Það þarf að taka upplýstar ákvarðanir, hafa í huga hvaða áhrif þær hafa. Um það var rætt.

Við ræddum komugjöld, það kom fram í meirihlutaáliti sem ég átti þátt í í vor um komugjöld eða hvað sem það yrði; skoðaðar voru sex mismunandi leiðir hér um árið og hvaða kostir væru mögulega í stöðunni. Þetta er bara hluti af þeirri greiningarvinnu og þeim rannsóknum sem þarf að gera á áhrifum breytinga á stórum liðum. Ég kalla eftir því. Þegar 45% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar koma úr ferðaþjónustu er búið að umbreyta efnahagslífinu á átta til níu árum. Þegar ég var barn eða unglingur átti ég aldrei von á því að sú stund rynni upp að sjávarútvegurinn væri ekki sú atvinnugrein sem skapaði mestu gjaldeyristekjur í þessu landi. Þetta er svo hröð breyting.

Við erum með margar mikilvægar atvinnugreinar, þó þrjár kannski sem hafa (Forseti hringir.) mest að segja. Við þurfum að þekkja þær betur þegar við tökum ákvarðanir um hvernig við stýrum okkar málum.