148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að nota aðeins byrjun ræðu minnar til að taka undir kröfu kvenna í heilbrigðisþjónustu sem segja frá mismunun, áreitni og ofbeldi í starfi í dag. Þessar 627 konur vilja skila skömminni þangað sem hún á heima og krefjast þess að heilbrigðisyfirvöld landsins, stéttarfélög, fyrirtæki og stofnanir á heilbrigðissviði viðurkenni vandann og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlun gegn kynbundnu ofbeldi og kynbundinni mismunun. Taka ber mark á þolendum og málum verður að vísa í réttan faglegan farveg. Ég vil fyrir mína hönd sem hluti af þessum heilbrigðisyfirvöldum taka þetta til mín og heiti því að setja málin í viðeigandi farveg í ráðuneytinu.

Hér ræðum við fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar. Tíminn er afar knappur hér í 1. umr. en mig langar til að nefna forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar sem endurspeglast meðal annars í auknum framlögum til heilbrigðis- og menntamála. Heildaraukning til heilbrigðismála frá síðustu fjárlögum er 21 milljarður sem skiptist þannig að til heilsugæslunnar fara 5,8 milljarðar, til sjúkrahúsþjónustunnar 8,5, til lyfjakaupa 5,4 milljarðar og hálfur milljarður í tannlæknakostnað aldraðra og öryrkja sem hér hefur aðeins verið vikið að.

Svo allrar sanngirni sé gætt og við ræðum þetta hér allt í réttu samhengi er aukningin frá síðasta fjárlagafrumvarpi, þ.e. því frumvarpi sem hér náðist ekki að mæla fyrir fyrir kosningar núna síðast nema í raun og veru til hálfs, ef svo má að orði komast, það komst ekki til nefndar, þá er aukningin frá því frumvarpi 8 milljarðar til heilbrigðismála. Þar af eru 3 í sjúkrahúsþjónustu, 1,3 í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, 360 milljónir í hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, 3 milljarðar í lyf og lækningavörur og loks 270 milljónir í lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála.

Engum þarf að blandast hugur um að þessir tímar eru allir óvenjulegir. Við erum með, eins og bent hefur verið á í umræðunni, í raun og veru gilda ríkisfjármálaáætlun. Ríkisstjórnin, vegna þess hvar við erum stödd á dagatalinu, þarf að byrja á því að leggja fram fjárlagafrumvarp áður en fjármálaáætlun hefur orðið til. Við erum að gera hlutina í annarri röð en lagt er upp með í lögum um opinber fjármál. En máli okkar til stuðnings og undirbyggingar liggur líka ný ríkisfjármálastefna til kynningar hér á Alþingi og verður væntanlega hægt að ræða hana eftir áramótin og fjalla um hana ítarlega, enda er þar um að ræða í raun stefnumörkun til lengri framtíðar.

Ég tek undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram hjá þingmönnum um að þetta verklag sé ekki til sóma en við erum í raun og veru lokuð inni í þessu ferli vegna laganna. Lögin eru þannig úr garði gerð að þau gera ráð fyrir eðlilegu árferði en ekki þeirri stöðu sem uppi er núna, þ.e. að við séum í raun ítrekað að kjósa seint að hausti og ítrekað sé fjárlagafrumvarp að koma fram svo seint sem raun ber vitni núna og í fyrra.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson var með í ræðu sinni hér fyrr í umræðunni og í orðaskiptum við mig umfjöllun um ýmiss konar hlutföll þar sem hann beitti ákveðnum talnaleikjum til að kalla fram eins lágar og hallærislegar tölur og hann gat með nokkru móti fundið út. Ég vil vona að í andsvari við mig hér á eftir sem hann þegar hefur meldað getum við verið sammála um einhverjar forsendur í því hvaða útgangspunkt við erum að nota þegar við berum saman tölur. Ég veit að honum þykir vænt um að bera saman epli og epli og appelsínur og appelsínur en ekki öfugt. Þannig er að ríkisframlagið til heilbrigðiskerfisins á árinu 2016 var 7% af vergri landsframleiðslu. Þetta framlag var 7,7% á yfirstandandi ári, verður 8,5% á árinu 2018. Hér er ég bara að tala um ríkisframlagshlutann en ekki heildarframlag til málaflokksins, þar með talið það sem kemur beint úr vasa sjúklinga, bara þannig að það liggi fyrir.

Virðulegur forseti. Þetta er óþægilega stuttur tími, þessar fimm mínútur, en ég sé að tími minn er búinn. Ég vænti þess að geta átt í miklum umræðum hér í andsvörum við hv. þingmenn.