148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að halda þessum tölum í samhengi — þetta eru alltaf svo háar tölur þegar við tölum um heilbrigðiskerfið og fyrir fyrrverandi umhverfisráðherra eru þetta veruleg viðbrigði í þeim tölum sem við ræðum hér — þá er það sem ætlað er til ríkisframlaga til Landspítalans á þessu ári um 66,5 milljarðar. Þegar við erum að tala um 600 milljónir erum við í raun að tala um undir einu prósenti. Þegar við værum að tala um 600 milljónir í einhverju öðru samhengi væri það auðvitað gríðarlega há tala.

Ég treysti því að forstjóri Landspítalans fari rétt með tölur. En ég treysti því líka að við séum samferða í því, ég og hann, að vilja standa vörð um gott opinbert heilbrigðiskerfi. Ég vænti þess að þess sjái stað í öflugri ríkisfjármálaáætlun þar sem ég og forysta Landspítalans erum sammála um að gott og sterkt háskólasjúkrahús er hjartað í góðri heilbrigðisþjónustu. Ég vænti þess, og þakka góð orð hv. formanns velferðarnefndar í minn garð, að við eigum gott samstarf um þau markmið.