148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

(HallM: Líka um stöðuna á Landspítalanum.)Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki klárað að svara andsvari hv. þingmanns í fyrra sinn. Á fjárlögum yfirstandandi árs eru framlög til Landspítalans upp á 61,3 milljarða. Það sem er í frumvarpinu hér eru 66,6 en þar eru auðvitað með talin ný verkefni. Það eru því sannarlega réttar athugasemdir sem koma fram hjá forystu Landspítalans. En það sem við erum að bæta inn núna frá september og inn í desemberfrumvarpið eru 2 milljarðar 665 milljónir. Það eru umtalsverðar viðbætur. Við erum að bæta inn 15 milljörðum í allt og þar af fara 8 milljarðar í heilbrigðiskerfið. Ég vonast auðvitað til þess að geta átt í góðu samstarfi. Ég heyri frá heilbrigðisstofnunum úti um allt land að það eru miklar væntingar til þess að sú sem hér stendur standi sig í stykkinu og ég heiti því að ég mun leggja mitt af mörkum og allan minn pólitíska þunga í að berjast fyrir heilbrigðiskerfið. (HallM: Staðan núna … undir núlli?) Við verðum að treysta því sem (Gripið fram í.) forysta Landspítalans segir en málið er núna hjá Alþingi.