148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hv. forseti. Mig langar að byrja á að óska hæstv. ráðherra til hamingju með embættið, þetta er stórt og mikið embætti. Á dögunum, í kosningabaráttunni, var haldinn fundur í Norræna húsinu þar sem talað var um nýjan Landspítala, nýjan spítala á nýjum stað. Þar kom fram að innan spítalans virðist hafa verið beitt ákveðinni þöggun gagnvart starfsfólkinu, að það megi ekki tjá sig um nýjan spítala. Það kom fram á þessum fundi, hjúkrunarfólk tjáði sig um þetta með skýrum hætti. Það hefur sem sagt ríkt þöggun innan spítalans um að byggja nýjan spítala á nýjum stað. Hyggst ráðherrann kanna þetta — þetta er til á upptöku — og beita sér fyrir því að þetta verði þá skoðað innan spítalans?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra, sem talaði hér í ræðu í gær um að „bjarga heilbrigðiskerfinu“ eftir áratuga vanrækslu og koma því þannig fyrir að það lenti ekki áfram í höndunum á peningaöflunum. Við hvað á ráðherrann? Er ráðherrann að tala um þá staðreynd að Framsóknarmenn, Sjálfstæðismenn og Vinstri græn hafa farið með heilbrigðisráðuneytið undanfarna áratugi? Er hann að tala um að of mikil einkavæðing hafi átt sér stað? Að Sjálfstæðismenn hafi ráðið of miklu í heilbrigðiskerfinu á Íslandi? Er það það sem ráðherrann er að tala um?

Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún leggi áherslu á minni einkaþjónustu í heilbrigðisgeiranum, að draga úr henni, eða hvort hún hyggst beita sér fyrir því að auka einkaþjónustu. (Forseti hringir.) Takk fyrir, ein mínúta.