148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að endurtaka spurningu hv. þm. Halldóru Mogensen um stöðu Landspítalans á þessu ári. Það er mjög mikilvægt því að við afgreiðslu fjárlaga í fyrra snerist vinna fjárlaganefndar aðallega um að Landspítalinn og heilbrigðisþjónustan kæmu út á núlli. Það var gefið loforð hér í ræðustól um að ef það stefndi í að það færi í mínus myndi Alþingi bæta úr því. Það skiptir öllu máli að við getum afgreitt það þannig að heilbrigðisþjónustan byrji ekki í mínus aftur fyrir næsta ár. Þá er kannski hægt að fara aðeins yfir stöðu varasjóðanna og því um líkt.

Hæstv. ráðherra nefndi einnig að við værum lokuð inni vegna laganna. Ég held að lausnin þar sé meiri samvinna við Alþingi. Ég velti fyrir mér hvort það hefði verið réttari leið að leggja fram fjárlagafrumvarp samkvæmt gildandi fjármálaáætlun og biðla til Alþingis um útfærslu stefnunnar því það eru jú þingmenn hérna sem eru innan ríkisstjórnarflokkanna (Forseti hringir.) sem gætu unnið því leið, breytingum á frumvarpi samkvæmt fjármálaáætlun.