148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Í fyrsta lagi varðandi spurningu hv. þingmanns um stöðu Landspítalans á þessu ári tel ég rétt að núna á allra fyrstu fundum nýrrar fjárlaganefndar, þegar hún fær frumvarpið til vinnslu, að þetta verði eitt af því sem verði fjallað um á fundi með forystu Landspítalans. Ég geri ráð fyrir að hún verði kölluð á fund nefndarinnar, ef ekki fyrsta þá annan fund, í umfjöllun um fjárlagafrumvarpið. Þar þarf auðvitað að ræða þau atriði sem hv. þingmaður nefnir hér.

Við höfum stundum stungið saman nefjum ég og hv. þingmaður hér í hliðarherbergjum varðandi framsetningu þessa frumvarps og hvernig haldið er utan um það en ekki síður um þann lagaramma sem við höfum búið okkur til. Það er alveg ljóst að þessi staða sem er uppi núna gerir miklar kröfur til sveigjanleika hjá þingmönnum og gerir mjög miklar kröfur til þess að fólk sé bæði tilbúið að leggja mikla vinnu á sig og á mjög óvenjulegum tímum o.s.frv. Ég vil bara fagna þessum almenna tóni sem er hér meðal þingmanna, við viljum einhenda okkur í að ljúka afgreiðslu (Forseti hringir.) þessa frumvarps þannig að stofnanir ríkisins og þeir sem eru á launum þar geti gengið að því vísu að hér sé búið að búa um þetta til ársins 2018.