148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að aldrei sé of oft minnt á að ríkisstjórnin situr í umboði Alþingis. Það er í raun og veru Alþingi sem er æðsta stofnun í landinu. Við sem förum með framkvæmdarvaldið á hverjum tíma höfum auðvitað ekki umboð til að framkvæma eitt eða neitt nema að Alþingi hafi tekið um það ákvörðun. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna mig á það hér. En sjálf er ég mjög upptekin af þessum sjónarmiðum. Þess vegna langar mig í mínu síðasta andsvari í þessari umræðu að velta því upp, í ljósi þess að við þurfum hér að setja fram heilbrigðisstefnu til langrar framtíðar og skil það þá bara hér eftir í umræðunni: Hver ætti að vera aðkoma Alþingis að því að setja saman heilbrigðisstefnu til langrar framtíðar þannig að við séum ekki með sviptingar í slíku lykilkerfi í samfélaginu frá ári til árs heldur sé það hluti af sameiginlegum samfélagssáttmála sem við getum gengið að sem vísum? (BLG: Þú … líka svarað.)