148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að biðjast afsökunar á þessum dónaskap og bjóða hæstv. umhverfisráðherra velkominn til starfans. Það verður gaman að fylgjast með honum nú sem fyrr. Ég vil þakka honum fyrir svarið. Það er mikilvægt að dregið sé fram hér í þingsal að hækkun á kolefnisgjöldunum verður umfram 50%. Ég greini strax ágreining á milli ríkisstjórnarflokkanna. Það er alveg ljóst að þetta virðist vera áherslumál af hálfu Vinstri grænna, og kemur ekki á óvart. Við erum búin að fá það dregið fram. Um leið er mikil tregða, og kemur ekki á óvart, af hálfu Sjálfstæðismanna til að ráðast í græna skatta, að horfa aðeins lengra til framtíðar, og eins með Framsóknarflokkinn. Það er mikilvægt að fá þetta fram því að tólf ár, fram til 2030, er ekkert langur tími. Við verðum að fara að byrja að vinna í þessu, nýta hvert einasta tækifæri, fyrsta fjárlagafrumvarpið sem ný ríkisstjórn setur fram, og reyna að marka stefnu til að vinna að þessum málum.

Þess vegna fagna ég því sem hæstv. ráðherra segir, við verðum að nálgast málið af fegurð og hófsemd en um leið vera meðvituð um það sem við þurfum að fara í. Það verður fróðlegt að sjá þessa þróun.

Ég hefði einnig viljað fá fram viðhorf hæstv. ráðherra hvað varðar afslátt til bílaleigna, skatturinn er upp á einn og hálfan milljarð til stuðnings ferðaþjónustunni. Á móti kemur að það hefur ákveðin áhrif á umhverfismálin líka. Hvert er viðhorf hæstv. umhverfisráðherra til þessarar tímabundnu niðurfellingar á gjaldtöku varðandi bílaleigubíla?