148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að beina ákveðnum spurningum til mín og ætla að reyna að svara. Ég byrja á því sem þingmaðurinn nefndi, að grænir skattar væru andsnúnir okkur Framsóknarmönnum. Það er aldeilis ekki. Við erum jú elsti umhverfisflokkur landsins og stöndum svo sannarlega undir því nafni og erum ánægð með þær áherslur sem eru í stjórnarsáttmálanum hvað það varðar.

Grænir skattar koma nefnilega einmitt upp í hugann þegar við veltum því fyrir okkur hvernig við eigum að fjármagna vegakerfið inn í framtíðina. Við erum með því að fara í orkuskipti og fá fleiri rafmagnsbíla, vetnisbíla, metanbíla og aðra vistvæna bíla hér inn og vera með ívilnanir þar að lútandi. Þegar þeir verða orðnir nægilega margir mun skattstofninn sem stendur undir öllum vegaframkvæmdum og viðhaldi hverfa. Var það skynsöm leið að bregðast við því með því að setja vegtollahlið við höfuðborgina til að taka inn tekjur hér og nú? Okkur fannst það ekki. Okkur fannst það vera skattlagning, vegna þeirrar augljósu staðreyndar, sem ég veit að þingmaðurinn skilur mjög vel í ljósi málflutnings þingmanna Viðreisnar í sambandi við fjárlögin, að á meðan við byggjum tíu þúsund íbúðir hér á höfuðborgarsvæðinu förum við ekki í tvöföldun á Reykjanesbraut, Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi og ekki í Sundabraut eða borgarlínu, auk annarra vegaframkvæmda á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu, því að það heitir þensla. Þess vegna þurfum við að forgangsraða.

Varðandi fjármögnunina þurfum við meðal annars að skoða grænu skattana en við þurfum líka að skoða hvernig við leggjum skatta á notkun á vegum til langrar framtíðar. Þar hafa verið uppi hugmyndir um til dæmis notkunargjald á akstri, þá eftir mismunandi vegum. En að leggja eingöngu á vegtollahlið er skattlagning á ákveðna íbúa landsins umfram aðra. Við vorum á móti því á sama hátt og við viljum fara varlega í að leggja á græna skatta. Við vorum á ágætum fundi í aðdraganda kosninga í Norræna húsinu þar sem ég lagði einmitt áherslu á það (Forseti hringir.) að skattarnir verði að vera hvati sem fólk getur nýtt sér í því að fara í orkuskipti en ekki vera bara beinn skattur á fólk, ekki síst úti á landi.