148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja forseta fyrst hvort allir ráðherrar séu í húsi. Ég nenni svo sem ekki að láta kalla eftir þeim, nenni ekki að bíða eftir þeim, en það var samið um það að ráðherrar yrðu við umræðuna þannig að þeir hljóta að vera hér frammi að hlusta. Ef ekki þá bara sakna ég þeirra ekki neitt.

Þessi umræða hefur eðlilega borið þess merki að allir eru nýkomnir með þetta í hendur. Það er þó sorglegt að sjá að stjórnarþingmenn virðast ekki kannast við það sem þeir hafa samþykkt í þessu frumvarpi af því að þetta kemur í gegnum flokkana inn í þingið. Við vitum þó að það er stórhækkun á ákveðnum sköttum. Sjálfstæðisflokkurinn fer hér í broddi fylkingar með því að hækka skatta sem er nýstárlegt á þeim bænum, en kannski hefur þetta verið einhver leynd þrá að fá að komast í þetta.

Það er ekki staðið við að lækka tryggingagjaldið eins og hér hefur fram komið. Þá hangir svokallaður bókaskattur enn þá inni þrátt fyrir stór og feit loforð um að afnema hann. Ég fæ ekki séð að það sé króna í byggðamál. Jú, það er verið að færa 100 milljónir, sé ég, úr byggðaáætlun yfir í sóknaráætlanir. Svona mætti telja áfram. Stór orð fyrir kosningar rata ekki hingað inn. Jú, bíddu. Það er talað um stórsókn í samgöngum, milljarður eitthvað slíkt, 1,5 kannski. Það er nú ekki stórsókn í ljósi þess umfangs sem samgöngur hafa.

Það er talað um stóraukna fjármuni inn í heilbrigðisþjónustuna. Jú, þar koma auknir fjármunir inn í heilbrigðisþjónustuna en ekkert í samræmi við það sem lofað var. Að sjálfsögðu ekki.

Húsnæðismál. Sá texti er jafn götóttur og svissneskur ostur einhverra hluta vegna. Ég veit ekki af hverju, en það er ekkert á því að græða, það sést ekki neitt.

Eldri borgarar. Jú, það er hent smávegis í þá í staðinn fyrir að fara bara alla leið og afnema þessa skerðingu sem er á atvinnutekjum og leyfa eldri borgurum að vinna hreinlega og borga skatta eins og öllum öðrum. Af hverju er það ekki gert?

Það er alveg augljóst að þetta fjárlagafrumvarp, eins og stjórnarsáttmáli þessarar ríkisstjórnar, er eitthvert samkomulag um mjög lítinn, helst lægsta samnefnara, og reynt að koma í veg fyrir að þessir flokkar rekist á.

Maður veltir fyrir sér líka hvort þessi útgjaldaaukning sem er held ég upp á 53,3 milljarða, eitthvað slíkt ef ég hef fundið rétta tölu í þessu frumvarpi, allt í lagi að leiðrétta mig ef hún er röng, sé valdakostnaður Sjálfstæðisflokksins núna. Þetta er sú tala sem kostar að halda völdum. Kannski er það meira, veit það ekki, en þetta er alla vega ekkert smáræði. Þetta er sjálfsagt bara pínulítil tala í þeirra augum, fyrir Sjálfstæðismenn, til að halda völdum í samfélaginu og fórna öllu til þess.

Ég er búinn að leita og leita að loforðum Framsóknarflokksins í þessu frumvarpi, finn þau ekki enn.

Mig langar hins vegar að velta því upp sem ég hef svolitlar áhyggjur af og ég ætla að koma þar inn á byggðamálin aftur. Ég finn ekki að það sé verið að auka í eða setja peninga í mjög mikilvægt mál sem er flutningskostnaður, niðurgreiðsla á flutningskostnaði. Það getur verið að ég hafi ekki fundið það í frumvarpinu, en ég sakna þess algerlega eins og bara byggðamála almennt.

Mig langar aðeins að koma hérna að fjármálakerfinu. Það er talað um að það eigi að koma greiðslur og skattar og eitthvert afgjald af fjármálakerfinu. Það er hins vegar enginn metnaður sjáanlegur og maður tengir þetta að sjálfsögðu við stjórnarsáttmálann. Þetta fjárlagafrumvarp er framhald af því gagnslausa plaggi. Þá veltir maður fyrir sér hvort það sé virkilega þannig að menn ætli að láta Arion banka fram hjá sér fara, menn ætli bara að leyfa vogunarsjóðunum að fara aftur til baka og hirða þetta allt saman. Svo virðist vera.

Ég var að velta líka fyrir mér landbúnaðarhlutanum í fjárlagafrumvarpinu. Ég veit ekki hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er hér einhvers staðar og hvort hann geti þá svarað því. Það var talað mjög digurbarkalega í aðdraganda kosninga og í rauninni ef ég man rétt í kosningabaráttunni og síðan rataði það held ég inn í stjórnarsáttmálann að það ætti að gera eitthvað stórkostlegt fyrir sauðfjárbændur. Ég bara auglýsi eftir því: Hvar eru þeir aurar í þessu fjárlagafrumvarpi? Hvað á að gera fyrir sauðfjárbændur? Eða kemur það bara einhvern tímann seinna, 2020 kannski, fyrir þá sem eftir verða? Það er líklega planið. Í það minnsta sé ég engar tölur undir landbúnaðarkaflanum sem eiga að fara í það. Það getur verið enn og aftur að ég hafi misst af þessu líkt og stjórnarmeirihlutinn virðist hafa misst af mörgum hlutum í þessu ágætisplaggi. Mikill pappír um lítið efni.

Kolefnisskatturinn. Það hefur ekki verið hægt að svara því hér þrátt fyrir að spurt hafi verið hvað það þýði nákvæmlega fyrir þá aðila sem eiga að fara að greiða þennan skatt. Er þetta bara fyrsta skrefið, eins og fram kom í ræðu hæstv. umhverfisráðherra í gær, í það að fara yfir í græna skatta? Það er ekkert í þessu plaggi um einhverja hvata. Hefur mönnum ekki dottið í hug að fá fólk með jákvæðum hætti að skipta um orku, fara í aðra orkunýtingu en nýtingu jarðefnaeldsneytis? Hvað með jákvæða hvata? Hvað með að eyða einhverjum aurum, fyrst menn eru tilbúnir til þess núna, að greiða niður (Forseti hringir.) fyrir þá sem þurfa að tengja bílana sína rafmagni eða eitthvað slíkt? Þetta er algert metnaðarleysi þegar kemur að þessu. Hér á bara að hækka skatta. (Forseti hringir.) Það er ekkert jákvætt við þetta.