148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi nú að það væru ráðherrarnir sem sætu hér fyrir svörum, en ég skal gjarnan svara spurningu hæstv. ráðherra því það er tiltölulega einfalt. Að sjálfsögðu á vinnan að hefjast þá þegar hvað varðar nauðsynlega endurskipulagningu kerfisins og að sjálfsögðu mun þurfa á meðan vinna stendur yfir að veita í það auknar heimildir. En það sem blasir hins vegar við okkur núna er að það er verið að ýta undir galla kerfisins. Með öðrum orðum, á meðan ríkisstjórnin er að afgreiða þessi fjárlög þá virðist hún ekki vera byrjuð á að skoða hvernig megi gera hlutina betur heldur er hún beinlínis að auka við gallana. Þarna á t.d. við það sem ég nefndi áðan af því hæstv. ráðherra spyr hvort eigi að halda áfram aðhaldskröfu. Það er verið að auka aðhaldskröfuna. Það er verið að skerða heilbrigðisþjónustu á mörgum stöðum, ekki hvað síst hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, vegna áherslna ríkisstjórnarinnar, vegna misskiptingarinnar í deilingu fjármagnsins til heilbrigðiskerfisins, vegna þess að það er ekki búið að taka á þessum vanda Landspítala sem á núna að festa í sessi í steinsteypu.

Svo ég klári þetta nú með Landspítalann. Það er búið að sýna fram á, herra forseti, að það er ekki aðeins hagkvæmara heldur miklu fljótlegra að byggja nýja byggingu á nýjum stað, byggingu sem virkar. Ég kannast við úttektina svokölluðu frá 2015 sem hæstv. ráðherra nefndi. Þetta var dæmigerð pöntuð skýrsla sem skilaði eingöngu þeirri niðurstöðu sem forsendurnar gáfu til kynna. Hverjar voru forsendurnar? Þær voru óbreyttar forsendur frá því sem var skoðað fyrir 30 árum.