148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spyr hvort hv. þingmaður geti rifjað upp með mér hver var forsætisráðherra á árinu 2015 og hvort hann geti rifjað upp með mér þegar Alþingi samþykkti samhljóða að halda áfram verkefninu við Hringbraut. Hvort hann hafi þá verið annarrar skoðunar um þessi sögulegu stóru mistök við Hringbraut eða hvort stöðumat hans hafi af einhverjum ástæðum verið annað á þeim tíma og hverju þá sæti.

Það var nefnilega ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem fór fyrir þeirri nálgun að leggja til við Alþingi að halda áfram uppbyggingunni við Hringbraut. Þannig var nú það.

Varðandi endurskoðun kerfisins þá er ég ósammála hv. þingmanni með það að við eigum að halda að okkur höndum með útgjöld til opinberra heilbrigðiskerfisins á meðan úttekt á því fer fram og framtíðarsýn varðandi fyrirkomulag þess. Ég er ósammála þingmanninum um það. Ég tel að það séu hlutir heilbrigðiskerfisins sem þurfi virkilega á stuðningi að halda og ekki síst hið opinbera kerfi. Það gildir bæði um Landspítalann – háskólasjúkrahús og heilbrigðisþjónustuna úti um land.

Þegar á heildina er litið bætum við 15 milljörðum inn í fjárlagafrumvarpið núna, þar af 8 sem fara inn í heilbrigðismálin. Ég er spennt að heyra hvað það er sem hv. þingmaður myndi vilja breyta í því, hvaða tölur hann vill lækka þar.

Mín skoðun er sú að ég hefði getað séð fyrir mér að mun meira hefði farið inn í heilbrigðiskerfið á þessum tímapunkti vegna þess að það eru rökstuddar beiðnir frá heilbrigðiskerfinu um allt land og ekki síst fyrir norðan og austan um meira fjármagn inn í heilbrigðisreksturinn.