148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að semja eigi um þessar bætur og jöfnunartækin sem ríkið hefur völ á í kjarasamningum á árinu 2018. Þá gæti kannski fátækasta fólkið átt von á einhverju í gegnum kjarasamninga. En hvað með þá sem ekki geta gert neina kjarasamninga? Hvað með þá sem ekki geta farið í verkfall til þess að knýja fram kjarabætur? Hvað með öryrkja og aldraða? Hvað með þá sem aðeins lifa á hreinum bótum eða hreinum greiðslum frá almannatryggingum?

Það er blekkingaleikur þar í gangi sem þessi ríkisstjórn og tvær síðustu hafa leikið og sagt: Í janúar 2018 ná bætur almannatrygginga lágmarkslaunum, 300 þús. kr. En það er ekki rétt. Það eru bara þeir sem búa einir sem ná 300 þús. kr. 1. janúar 2008. Öryrkjar og aldraðir í sambúð eru á mun lægri kjörum. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra beita sér í þeim málaflokki á árinu 2018? Eða á ekkert að gera það á árinu 2018? Eiga fátækir, aldraðir og öryrkjar enn að bíða á meðan við hin njótum góðærisins?