148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:39]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Að vísu svaraði þetta ekki spurningunni að því marki að þarna var aðallega verið að ræða út frá stjórnarsáttmálanum. Stjórnarsáttmálinn er afskaplega fallegt plagg en það eru engar fjárheimildir í honum, það eru engir peningar raunverulega lagðir í verkefnin.

Það sem mig langar að vita er hvaðan þeir peningar eiga að koma sem eiga að fjármagna t.d. kolefnisjöfnunarverkefni sauðfjárbænda. Hvar eru aðgerðirnar sem munu hafa þessi áhrif? Ég hreinlega óttast að það sé svolítið mikið af ómarkvissum fullyrðingum um að hlutir eigi að gerast án þess að búið sé að tryggja fjármagn í þá.

Svo ég komi örsnöggt inn á annað er eitt af markmiðunum varðandi nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar að gera samkeppnismat á lögum og reglum valinna atvinnugreina. Það er mjög jákvætt. En hefur komið til greina að gera sambærilega rannsókn innan veggja Samkeppnisstofnunar á því hvort einhverjar greinar hafi ekki það samkeppnisumhverfi sem væri eðlilegt að þær hefðu? Það hafa oft verið getgátur um að það sé eitthvert samkrull og samráð sem gæti jafnvel valdið töluverðri hækkun á kostnaði til neytenda í samfélaginu sem og dregið úr möguleikum fyrirtækja til að komast inn á markaði. Er það eitthvað sem kemur til greina að ræða eða framkvæma? Það er nefnilega of mikið rætt en kannski of lítið framkvæmt.