148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:44]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Engin stór merki eru um stefnubreytingu eða tillögur eins og gera hefði mátt ráð fyrir með setu velferðarflokks í nýrri ríkisstjórn. Vinstri græn hafa ekki skilið eftir sig mikil fingraför. Frumvarpið dregur fram talsverða eftirgjöf þeirra við stjórnarmyndun. Það eru mikil vonbrigði. Ég ætla ekki að eyða orðum í loforð Sjálfstæðisflokksins um 100 milljarða í innviði fyrir kosningar; þau dæma sig náttúrlega sjálf, enda er sú upphæð orðin 15 milljarðar í samanburði við frumvarp Benedikts Jóhannessonar frá því í haust. Það er sem sagt eingöngu tveggja prósentustiga breyting á útgjöldum ríkisins frá því frumvarpi.

Sjálfstæðisflokkurinn og VG eru í grundvallaratriðum ósammála um hlutverk skattkerfisins. Sá fyrrnefndi álítur það einungis vera hlutverk skattkerfisins að standa fyrir nauðsynlegri tekjuöflun og talar auk þess um einföldun skattkerfisins. Hinn síðarnefndi hefur talað fyrir þrepaskiptu kerfi og vill að það sé einnig hugsað til tekjujöfnunar. Hvorugt virðist þó eiga að gera. Milljarðar tekna eru gefnar eftir í frumvarpinu og frekari skattalækkanir raunar boðaðar í stjórnarsáttmálanum. Þetta er gert á toppi hagsveiflunnar um leið og ráðast á í talsvert varanlega og nauðsynlega útgjaldaaukningu.

Hér er ekki verið að búa í haginn fyrir mögru árin. Þvert á móti kalla þessar breytingar hugsanlega á hærri vexti og verðbólgu; bensíngjöfin er stigin í botn. Reynslan sýnir okkur að það styttist í næstu niðursveiflu og fallið verður fyrir vikið kannski hærra en ella — harðara alla vega.

Það þarf að svara kalli þjóðarinnar eftir nauðsynlegri innviðauppbyggingu og það þarf að efna kosningaloforð allra flokka. Til þess hefði verið betra að fara þá leið sem bæði Vinstri græn og Samfylkingin töluðu um fyrir kosningar — að afla tekna fyrir útgjöldum, hlífa fólki með lágar tekjur og meðaltekjur, en sækja tekjur til þeirra sem best hafa það. Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum hér að Íslendingar búa við mjög ólíka stöðu. 5% þjóðarinnar eiga jafnmikið og 95%.

En harðduglegt lágtekjufólk getur með engu móti náð endum saman eins og staðan er. Öryrkjar og aldraðir lifa á allt of lágum grunnlífeyri. Margar fjölskyldur búa á ótryggum, rándýrum leigumarkaði og ágætt að nefna að rannsóknir hafa sýnt samhengi milli fátæktar barna og þeirra barna sem búa á leigumarkaði.

Það eru til skilvirkar leiðir til þess að vinna gegn þessum ójöfnuði og gegn fátækt. Það eru vel þekktar leiðir og þarf ekkert að fara í neinar sérstakar úttektir þó að alltaf sé gott að halda til haga upplýsingum. Ég get nefnt aukinn húsnæðisstuðning með hraðri uppbyggingu minni leiguíbúða reknum af félögum sem ekki eru hagnaðardrifin. Ég get talað um vaxtabætur sem nýtast skuldsettum heimilum og hærri húsnæðisbætur fyrir leigjendur sem eru fastir á erfiðum leigumarkaði og hafa ekki notið þess sem hækkun á íbúðaverði hefur skilað síðustu ár. Loks er ágætt að minnast á hækkun barnabóta sem er mjög þekkt og skilvirk leið til að jafna kjörin. Engar slíkar aðgerðir eru boðaðar með þessari ríkisstjórn. Þetta stappar nálægt skandal, sýnist mér.

Mér finnst umfjöllun um húsnæðismál yfir höfuð vera mjög loðin, óljós, og einkennast kannski helst af tali um verðtryggingu. Ef ég þekki Framsóknarflokkinn rétt þá þýðir það að stefna eigi að banni við 40 ára verðtryggðum húsnæðislánum. En það er lánaformið sem þrátt fyrir allt er það eina sem hefur getað nýst tekjulágu fólki hér í samfélaginu. Hvað á að koma í staðinn ef ekki eru boðaðar mótvægisaðgerðir í formi hækkunar á vaxtabótum og barnabótum til þess að brúa bilið yfir þröskuldinn í fyrsta sinn?

Það á ekkert að hækka grunnlífeyri aldraðra og öryrkja, sem lægst hafa launin. Fólk í sambúð verður enn með undir 300 þús. kr. í laun. Það er allt of lítið. Það væri auðvitað nauðsynlegt að ná samstöðu um þessar lagfæringar. Það eru flokkar í ríkisstjórn sem ég veit að myndu vilja það. Við skulum láta reyna á það.

Það er í raun lítið í þessu frumvarpi sem bendir til þess að yfir höfuð eigi að ráðast gegn misskiptingu og auka jöfnuð hérna í samfélaginu. Það er mjög sorglegt.

Ég ætlaði aðeins að tala um þessar skattkerfisbreytingar, hvernig þær munu koma við fólk, en ég verð þá að láta það bíða. Svo hefði verið gaman að ræða aðeins um mjög metnaðarfullar aðgerðir sem boðaðar eru í stjórnarsáttmálanum í loftslagsmálum, en dapurlegt að sjá að það á að fara að gefa eftir skattheimtu þar. Að öðru leyti eru þær aðgerðir líka illa fjármagnaðar. Þannig að ég varð fyrir vonbrigðum.