148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leiðinlegt ef ég er ósanngjarn. Ég veit auðvitað að ekki er hægt að koma með allt á fyrsta degi. En miðað við hve fjallað er um sumt í mörgum orðum, sem er þó ekki skilgreint, hefði kannski verið hægt að fara almennum orðum um þetta. Nú er það heldur ekki svo að allir þeir sem eru ungir hafi áhuga á því að eiga íbúð. Neyslumynstur er að breytast og við þurfum einfaldlega að láta meira inn í stofnframlögin en gert var; það er engin aukning frá frumvarpi Benedikts.

Aðrar leiðir koma líklega til greina líka. Samfylkingin hefur til dæmis lagt fram frumvarp um þessi norrænu brúarlán, þannig að þið megið fá lánað afrit af því hjá okkur. Eins eigum við gamalt kosningaloforð, sem hét Forskot á fasteignamarkaði, sem gerði ráð fyrir að fólk gæti fengið fimm ár í vaxtabótum fyrir fram. Það er auðvitað ekki skilvirk leið ef menn eru að eyða vaxtabótakerfinu.

Séreignarsparnaðinn ætlaði ég nú ekkert að ræða hér. Það er auðvitað aðgerð sem hjálpar fyrst og fremst þeim sem eru í tekjuhærri hópnum og búa við betri aðstæður. Vinstri græn gætu nú hjálpað ykkur að útlista ókostina við það; þau töluðu talsvert ásamt okkur um það. Mér þykir samt ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra boðar að eitthvað verði gert, af því að þetta er ofboðslega brýnt mál í samfélaginu okkar. Við munum sannarlega leggjast á árar með ykkur í því.