148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að bæði eru aðilar á markaði sem velja það að vera á leigumarkaði og einhverjir munu væntanlega hreinlega þurfa að vera á leigumarkaði. Á liðnum árum höfum við breytt lagaumhverfi húsnæðismarkaðarins. Búið er að búa til tæki til að fara þessar leiðir, m.a. með almennum íbúðum, með stofnframlögunum. Þau hafa verið fjármögnuð nægilega um þessar mundir þannig að menn geta í raun ekki byggt hraðar. Það hefði kannski haft lítið upp á sig að setja meiri fjármuni í þetta í þessum fjárlögum, en við erum hins vegar að uppfylla þann samning sem gerður var á sínum tíma við aðila vinnumarkaðarins um þessi mál.

Ég held að við þurfum að halda áfram að horfa inn í þennan veruleika. Við þurfum að halda áfram að tryggja meira framboð. Það þurfum við að gera í samstarfi við sveitarfélögin, þ.e. að meira framboð verði á lóðum til að byggja hagkvæmari íbúðir. Rætt er um það í stjórnarsáttmálanum. Ég veit að mikill áhugi er á því hér í þinginu og m.a. hjá hv. þingmanni.

Hann kom inn á hugmyndir sem Samfylkingin hefur lagt fram, útfærslu á norrænum leiðum. Það er nú akkúrat það sem við vorum að ræða dálítið hér í gærkvöldi, í umræðum um stefnuræðuna, og er talsvert mikið rætt um í stjórnarsáttmálanum, að við viljum hlusta á þær hugmyndir sem koma frá öðrum, þekkingu og reynslu sem menn leggja fram. Það er tónninn sem sleginn hefur verið.

Það er gleðilegt ef við getum sameinast á þessum mikilvæga markaði, í húsnæðismálunum, sem eru í ólestri. Ef framboð af hagkvæmum lóðum verður ekki aukið verulega þá held ég að engu að síður, þrátt fyrir allt byggingamagn til að mynda hér á höfuðborgarsvæðinu, að því miður verði enn eftirspurn, umframframboð, eftir fjögur ár.