148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað gott ef ríkisstjórnin vill hlusta og fá hugmyndir okkar og taka þær til skoðunar. Mér fannst fyrstu skrefin, þegar við vorum að tefla fram hugmyndum um nefndasetur og annað, ekkert benda til þess að verið væri að sýna neinn sérstakan sveigjanleika. En látum það vera.

Hæstv. ráðherra talar um að ekki sé hægt að byggja hraðar. Jú, það er nefnilega hægt að byggja hraðar. Við Íslendingar erum ótrúlega gamaldags þegar kemur að byggingariðnaði. Við þurfum að fara að huga að því að byggja léttari byggingar og koma þeim upp hraðar. Til þess þarf að veita fé líka þannig að viðeigandi stofnanir hafi aura til að leggjast í byggingarrannsóknir. Við þurfum einmitt að byggja hraðar. Við þurfum að byggja minna og við þurfum að byggja nær hvert öðru til þess að við getum komið á skilvirkum almenningssamgöngum.

Þá erum við komin að loftslagsmálunum. Það er stærsta einstaka aðgerðin, hæstv. umhverfisráðherra, sem hægt er að fara í til að ná árangri í loftslagsmálum; það er byggðin, það er hið manngerða umhverfi þar sem 70% Íslendinga búa. Það er frekar sorglegt að í stjórnarsáttmálanum sé nánast ekkert fjallað um það. Það hefði átt að vera lykilatriði í plagginu frá hæstv. umhverfisráðherra. Ég vona að hann editeri það og lagi það bara næst.