148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Samfylkingin gekk til kosningabaráttunnar með það varkára markmið, eins og ríkisstjórnin leggur til hér, að hækka frítekjumarkið eingöngu í 100 þús. kr. Það má vel vera að hægt sé að sýna fram á að nettóútkoman með því að afnema öll frítekjumörk alveg upp úr á öllum atvinnutekjum sé með einhverjum þeim hætti sem gerir það ekki miklu dýrara. En fyrst og fremst er þetta auðvitað réttlætismál. Ef menn eru með brjálæðislega háar tekjur þá skerðist í rauninni eitthvað. Mér finnst ekkert að því. Við höfum hins vegar lagt áherslu á að einungis 13% aldraðra eru á vinnumarkaði, geta það, vilja það eða eru þar af öðrum ástæðum. 87% eru þar ekki og fastir með sinn grunnlífeyri sem er allt of lágur. Við hefðum því frekar viljað stíga þetta varfærna skref og fara svo í það að hækka grunnlífeyri sem nýtist öllum, líka fátæku gömlu fólki sem hefur bara strípaðar tekjur.

Hvað varðar borgaralaunin hefur Samfylkingin viðurkennt að það þurfi að skoða þau og velta þeim fyrir sér vegna þess að þessi fjórða iðnbylting mun leiða til þess að atvinnustig mun gjörbreytast og áhyggjur okkar lúta aðallega að því að þegar fjármagnseigendur og fyrirtækjaeigendur þurfa ekki lengur vinnuafl heldur geta nýst við vélar, þá þarf að skattleggja framleiðsluna með einhverjum hætti öðruvísi en bara af launatekjum til þess að hið opinbera sitji ekki uppi með fólk sem enga vinnu hefur og ekki er hægt að veita þeim neina þjónustu.