148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:11]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Tilgangur minn er ekki að lengja umræðuna neitt eða fá hér upp hóp af fólki í fundarstjórn. En talað var um það sérstaklega á vettvangi þingflokksformanna og formanna að hér væru ráðherrar í salnum. Nú má vel vera að þeir séu hérna rétt fyrir utan að hlusta því. Það er pínulítið eins og þegar maður slekkur ljósin í rakafylltum herbergjum, þá fyllist allt af litlum pöddum. En mér finnst miklu eðlilegra að ráðherrar séu hérna. Og ef þeir geta ekki verið allir hér í einu, sem ég hef fullan skilning á, þá skipti þeir með sér verkum. Það tíðkast t.d. í venjulegum verksmiðjum. Þar vinna menn á vöktum, einn fer og annar kemur. Það geta verið fjórir hér í einu. En mér finnst þetta ókurteisi. Það er sérstaklega áhugavert að það er enginn ráðherra Vinstri grænna hér og voru þau þó nokkuð dugleg á síðasta ári við að koma upp í fundarstjórn forseta við sömu aðstæður.