148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að flestir séu sammála um að sú aukna áhersla sem þessi ríkisstjórn leggur á mennta- og menningarmál komi mjög skýrt fram. Ég leyfi mér að vitna í Háskólaráð Íslands og hvernig það tekur nýju fjárlagafrumvarpi. Þeir segja að loksins sé verið að stíga áþreifanleg skref í að gera háskólastigið sambærilegt því sem gerist hjá öðrum OECD-ríkjum og annars staðar á Norðurlöndum. Ég held því að margir sjái þetta allt öðrum augum en hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson.

Annað sem mig langar að nefna og kom fram hjá honum: Hann sagði fyrr í dag, og fullyrti, að hagræðing að fjárhæð 600 milljónir kr. á framhaldsskólastiginu væri enn í gildi. Ég get upplýst hv. þingmann um að svo er ekki. Ég veit reyndar að mönnum hefur ekki gefist mikill tími til að fara yfir frumvarpið en raunaukningin til framhaldsskólastigsins nemur 400 millj. kr.