148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að teyma hæstv. ráðherra aðeins út úr sínum málaflokki. Hér er talað talsvert mikið um stórsókn, að blásið sé til stórsóknar á mörgum sviðum. Þegar horft er á heildarútgjaldaaukningu frá fyrra fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í haust sýnist mér að það séu um 16 milljarðar og þar af um helmingur sem rekja má til veikleika í forsendum þess frumvarps, liða sem reikna þurfti upp út frá aukinni fjárþörf. Það er því leitun að þeirri stórsókn sem talað um í nýju fjárlagafrumvarpi. En það er leitun að fleiru. Fyrrum flokksfélagar hæstv. ráðherra hafa leitað talsvert að málefnaáherslum Framsóknarflokksins í þessum málaflokki og ekki fundið. Mig langar að spyrja út í tvo þætti sem flokkurinn lagði mikla áherslu á í aðdraganda kosninga, sem var svissneska leiðin í húsnæðismálum og svo aftur sérstakar breytingar á skattkerfinu til þess að koma sérstaklega til móts við þá lægst launuðu og að hækka skattleysismörk. Hvorugt virðist vera að finna í stefnu nýrrar ríkisstjórnar.