148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningar hv. þm. Þorsteins Víglundssonar um svissnesku leiðina þá stendur í stjórnarsáttmálanum að við ætlum að vinna að leiðum til að auðvelda ungu fólki að eignast húsnæði. Einn þáttur í því er að fara svissnesku leiðina. Við höfum líka sagt að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að framboðshliðin sé fullnægjandi hvað það varðar. Við vitum að ef við setjum mikla aukningu á fjármunum í eftirspurnarhliðina hækkar húsnæðisverð. En það er svo sannarlega getið um það í stjórnarsáttmálanum og við ætlum að vinna að því að auðvelda ungu fólki að koma sér inn á húsnæðismarkaðinn.

Hv. þingmaður spurði hvernig við ætluðum að koma til móts við tekjulægri hópana. Það er vinna sem við beinum sjónum okkar að, þ.e. hvernig gera megi kerfið hagfelldara fyrir þennan hóp.